Fimmvörðuháls 2024

Í sumar verða tvær göngur yfir Fimmvörðuháls á dagskrá hjá Veseni og vergangi. Fyrri ferðin verður laugardaginn 6. júlí og seinni ferðin laugardaginn 20. júlí. Í báðum tilvikum eru sunnudagarnir til vara ef veðurspá er slæm fyrir laugardaginn.

Mjög vinsælt er að ganga frá Skógum milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls yfir Fimmvörðuháls yfir í Goðaland og Þórsmörk. Nafnið er dregið af fimm vörðum er stóðu þar nokkuð þétt til að vísa leiðina í dimmviðri. Fyrrum ráku bændur undir Austurfjöllum ær sínar þarna um yfir í grösuga sumarhaga en því var hætt árið 1917. Að mestu leyti er þó gott að fara Fimmvörðuhálsinn og stálpuð börn fara gjarnan þessa gönguleið með foreldrum sínum. Vorið 2010 gaus á Fimmvörðuhálsi og mynduðust gígarnir Magni og Móði og rann hraun yfir gamla slóðann. Sá nýi liggur um hraunið og hægt er að fara upp á annan eða báða gígana. Stórkostlegt útsýni opnast þegar leiðin fer að lækka niður í Þórsmörk og lætur fáa ósnortna.

Við tökum rútu frá Reykjavík (Hádegismóum við prentsmiðju Morgunblaðsins) kl. 7 að morgni og göngum upp frá Skógum. Í Básum bíður rúta og við komum því aftur í bæinn um kvöldið. Reynslan sýnir að við komum á bilinu kl. 22 til miðnættis í bæinn.

Hámarksfjöldi í ferðina er 35 manns (lágmarksfjöldi er 18 manns).

Einn af fjölmörgum fossum í Skógá er Skálabrekkufoss sem sést þarna í sinni glæsilegu umgjörð.

LÍKAMLEGT FORM
Gangan frá Skógum og yfir Fimmvörðuháls að Básum er ca 23 km, uppsöfnuð hækkun ca 1100 m og göngutími 9-12 tímar (fer eftir aðstæðum). Það segir sig sjálft að fólk þarf að vera líkamlega tilbúið í svona áreynslu, sem samsvarar því að ganga tvisvar í röð upp að Steini í Esjunni og bæta nokkurri vegalengd við það í snjó. Þannig að æfingar eru nauðsynlegar fyrir ferðina og best að æfa sig í göngu. Upplagt er að fara fimm sinnum upp að Steini eða sambærilegt síðustu þrjár vikurnar fyrir ferð.

NESTI OG ÚTBÚNAÐUR
Takið með ykkur gott nesti og fínt að hafa viðbótarbita í rútunni til að eiga eftir göngu (að auki má geyma aukaskó og föt í rútunni til að eiga eftir göngu). Einnig þarf að vera vel útbúin, í góðum skóm sem þola að ganga í blautum snjó, vera með skel í bakpokanum sem þolir vind og vætu, vera með einangrandi millilag og með góða húfu og vettlinga. Takið með aukapeysu eða létta úlpu til að klæðast í nestinu. Göngustafir geta gagnast enda draga þeir úr álagi á hné og mjaðmir.

VERÐ OG BÓKANIR
Verð kr. 25.000 m/vsk
Innifalið er fararstjórn og rúta frá Reykjavík á upphafsstað og til baka frá endastað göngu.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið smellið á tengilinn, skráið ykkur inn og veljið það námskeið sem passar, greiðið og þá er allt klappað og klárt). Hægt er að prenta út kvittun í kerfinu og nýta til niðurgreiðslu stéttarfélags eða vinnustaðar. Athugið að færslur frá bókunarkerfinu á bankareikningi eru merkt sem „æfingagjöld“.

Þá er einnig mögulegt að greiða með millifærslu. Greiðsla jafngildir bókun. Greiðið inn á reikning 0515-26-530314 kt. 530314-0650 og sendið staðfestingu merkt „5vörðu6“ eða „5vörðu20“ á einarskula@hotmail.com.

Þarna sjást gígarnir Magni og Móði á Fimmvörðuhálsi.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 7.200 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. sex vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.

Afbókanir: Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

 

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113