Búnaður

Alls konar búnaður er í boði og flest er dýrt. Á að velja nýjustu gerðina af jakka frá þessum framleiðanda eða öðrum sem Gunna og Jón mæltu með? Það er mikilvægt að hafa í huga að fátt af þessu er nauðsynlegt til að fara út í göngutúr og margt er til í skápunum heima. Ekki þarf að eignast alla hluti strax, gott er að bæta við útbúnað smátt og smátt. Ýmislegt er hægt að fá leigt hjá útivistarbúðum (hér er átt við skó, tjald og ýmsan búnað en ekki fatnað) og prófa sig þannig áfram með hvað hentar. Þannig tökum við tillit til okkar þarfa og umhverfisins með skynsemi í neyslu. Velja búnað vel og vandlega og koma í veg fyrir óþarfa kaup.

Það er hægt að gera góð kaup í notuðum fatnaði og ýmsum búnaði. Almennt er þó varað við að kaupa notaðan öryggisbúnað eins og brodda. Gönguskó er æskilegt að kaupa nýja eða nýlega til að vera viss um að mynstur og grip sóla sé gott. Mikilvægasta varðandi val á gönguskóm er að sömu skór henta ekki öllum og því skiptir máli að máta sem flestar tegundir. Gott er að þeir séu með öndunarefni (þola bleytu) og vernda fót og ökkla. Þeir þurfa að vera með nægilega gróft mynstur á botni svo þið rennið ekki til.

Við val á öryggisbúnaði svo sem fjallabroddum, karabínum, klifurbelti og fleiru er mikilvægt að hann standist öryggisstaðla. Leitið eftir CE og eða UIAA vottun, EN staðlanúmeri eða svipuðu. Undantekningalaust gera útivistarbúðir miklar kröfur til þess búnaðar sem þær selja og því engin hætta á að þú kaupir búnað sem stenst ekki kröfur. Hins vegar getur verið gott að kynna sér um hvað málið snýst.

Búnaður – umhirða

Föt og annar búnaður sem við notum í göngu þarf að hugsa vel um. Bursta skít og skola salt af skóm og buxum. Þurrka vel blautan búnað og viðra ullarföt. Leðurskór og skór með öndunarfilmu þarf að þrífa með sérstökum efnum og bera á þar til gerðan áburð. Við mælum með að geyma umhirðuleiðbeiningar sem fylgja skóm en oft má einnig finna þær á heimasíðu framleiðanda.
Hið sama gildir um skelina, jakki og buxur úr vind- og vatnsheldu öndunarefni. Þumalputtareglan er að þvo skel eins sjaldan og hægt er því það hefur áhrif á eiginleika hennar. En eftir x mikla notkun er skelin hætt að virka sem skyldi og þá er komin tími á þrif og lífga vörnina við. Öndunarefnið í skelinni er alsett örsmáum holum sem eru farnar að stíflast af svita og skít. Til að þrífa skelina þurfum við sérstakt þvottaefni eins og áður sagði. Og áður en skelin er þrifin þarf að þrífa þvottavélina hátt og lágt. Þvottaduft getur líka stíflað öndunarefni skeljarinnar og því viljum við ekki þvottaduft í sápuhólfi né tromlu. Kynnið ykkur leiðbeiningar sem fylgja ykkar skel og sömuleiðis þvottaefnis. Misjafnt er hvort setja á skel í þurrkara eftir þvott eða ekki. Sömuleiðis getur verið þörf á þvottaefni og svo öðru efni til að bæta vatnsvörn, líkt og með skó, en yfirleitt er þetta eitt og sama efnið fyrir skel.

Búnaðarlistar

Útbúnaður er breytilegur eftir hvaða gönguleið og árstími eiga í hlut. Eftirfarandi búnaður er nauðsynlegur í flestum ferðum okkar:

Gönguskór
Göngusokkar (ekki bómull)
Hlý nærföt (ull, innsta lag)
Flíspeysa/þunn fíberúlpa (millilag)
Göngubuxur
Jakki og buxur úr vind- og vatnsheldu öndunarefni (skel)
Minni gerð af bakpoka (<32L)
Húfa og buff (skjóla?)
Vettlingar
Legghlífar
Göngustafir
Höfuðljós
Keðjubroddar

Fyrir lengri göngur eða ferðir bætist við eftirfarandi búnaður:

Gönguskór með millistífum/stífum sóla
Stærri bakpoki (>32L)
Sólgleraugu/skíðagleraugu
Auka sokkar
Sólarvörn
Hælsærisplástur
Létt dúnúlpa
Hleðslubanki og snúra

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113