Um okkur

Gönguklúbburinn Vesen og vergangur var stofnaður árið 2011. Vesen og vergangur er gönguhópur sem skipuleggur skemmtilegar og fjölbreyttar gönguferðir á suðvesturhorninu allt árið og víðar á landinu á sumrin. Einnig eru skipulagðar ferðir erlendis í samstarfi við Bændaferðir. Vesenisferðir ehf er með ferðaskrifstofuleyfi og eiga því þær reglur við ef um er að ræða alferðir. Vesen og vergangur er í samstarfi við útivistarverslunina Fjallakofann varðandi útbúnað fyrir fararstjóra. 

Gönguappið Wapp-Walking app er dótturfélag Vesens og vergangs. Wapp er ókeypis smáforrit sem inniheldur safn af GPS leiðarlýsingum með fróðleik um allt Ísland á góðum kortagrunni. Sjá nánar á wapp.is.

Einar Skúlason er stofnandi gönguklúbbsins Vesens og vergangs og gönguappsins Wapp. Hann er margreyndur leiðbeinandi og leiðsögumaður í styttri og lengri gönguferðum á Íslandi. Þar á meðal í fjölmörgum gönguverkefnum í samvinnu við SÍBS. Hann er höfundur bókanna „Átta gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur“ og „Lóa með strá í nefi“.

Auk Einars eru nokkrir fararstjórar hjá Veseni og vergangi sem eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á útivist: Birna María Þorbjörnsdóttir, Bjarki Valur Bjarnason, Elísabet Snædís, Jónsdóttir, Guðný Ragnarsdóttir, Gunnar Gunnarsson, Jóhanna Fríða Dalkvist, Jón T Bjarnason, Kristín Silja Guðlaugsdóttir, Rakel G. Magnúsdóttir, Trausti Pálsson og Þórdís Sigurgeirsdóttir. 

Samfélagið

Gönguklúbburinn Vesen og vergangur er öllum opinn. Markmið hans er að skapa samfélag allra sem vilja njóta útivistar og göngu í náttúrunni. Göngur án endurgjalds eru auglýstar með viðburðum á facebook síðu.  Greitt er fyrir þátttöku í ferðir, námskeið og lokaða hreyfihópa (brölthópa).

Vesen og vergangur gætir þess að vera í sambandi við landeigendur á þeim svæðum sem farið er um ef ástæða er til. Vesen og vergangur leggur áherslu á að versla við heimamenn í nærumhverfi áfangastaða, t.d. við kaup á leiðsögn, ráðgjöf, gistingu, mat og annan aðbúnað.

Allir í hópnum geta skipulagt göngu á Facebook síðu Vesens og vergangs og eru hvattir til þess. Sá sem skipuleggur göngu ákveður leiðina með eigin reynslu og þekkingu í huga. Minnt er á að þegar gengið er í hóp er miðað við gönguhraða hópsins en um leið er fólk beðið um að velja göngur við hæfi út frá viðburðalýsingu og áætluðum gönguhraða (hægt að sjá út frá áætluðum göngutíma). Hlutverk þess sem skipuleggur göngu er að ákveða dagsetningu, tímasetningu og skoða veðurspá og færð og meta áhættu í samræmi við aðstæður.  Í sumum tilfellum er upplýsingum safnað um leiðina eða um eitthvað í tengslum við hana og kynnt hópnum á leiðinni.

Meginreglan um auglýsingar á Facebook vegg hópsins er að þar eru auglýstar gönguferðir á vegum Vesens og vergangs. Það eru til undantekningar og þá eru það auglýsingar um göngur sem eru ekki á vegum skipulagðra ferðafélaga eða fyrir góðan málstað, einnig geta það verið auglýsingar um sértilboð á búnaði eða öðru sem tengist gönguferðum til Vesenisfélaga. Við reynum að túlka þetta svigrúm þröngt, því að annars er hætta á að veggurinn fyllist af auglýsingum um hitt og þetta. Vesen – félagslíf síðan á Facebook leyfir allar auglýsingar.

Eitt af því skemmtilega sem gerist eftir göngur er þegar göngumenn deila myndum. Best er að deila myndum inni á vegg viðburðar fyrir gönguna sjálfa, ekki á facebook vegg hópsins. Þannig er auðveldar að finna allar myndirnar aftur fyrir þá göngu. Við hvetjum alla sem birta myndir sínar á samfélagsmiðlum að nota myllumerkið vesenogvergangur til að merkja myndirnar. #vesenogvergangur eða #vesen og ártalið #vesen22, #vesen23 o.s.frv.

Vesenisferðir ehf
530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113

Góð ráð