Dalastígur um verslunarmannahelgi

Dalastígur er nýleg gönguleið á fallegum en fáförnum slóðum að Fjallabaki. Þarna eru ekki breiðir stígar eins og á Laugaveginum, en yfirleitt eru kindagötur, reiðleiðir eða slíkir slóðar og stundum jeppaslóðar. Þetta er mjög fallegt umhverfi og mikið um móberg, ljós rýólítfjöll og jarðhitinn hefur víða sett mark sitt. Svartir sandar og gróðursnauðir melar eru áberandi en gróðurvinjar eru fallegar þar sem þær hafa náð að myndast. Við munum sjá stórkostlega staði, landslag og í heild er þetta veisla fyrir augað. Við gistum í skálum og gangan verður trússuð.
Við þurfum að vaða nokkrum sinnum og alveg örugglega fyrstu þrjár dagleiðirnar en gætum sloppið við það fjórða daginn.

 

DAGSKRÁ

Föstudagur 4. ágúst
Látið verður vita síðar hvar við hittumst á höfuðborgarsvæðinu snemma morguns. Setjum trúss í trússbílinn og tökum dagpokann með okkur í rútuna og keyrum austur í Fljótshlíð og inn Fjallabaksleið syðri og stoppum við brúna yfir Markarfljót skammt frá Emstrum og skálanum Mosa þar sem gangan hefst.
A.Í fyrri hluta göngunnar höfum við tvo kosti og það fer eftir veðri og sérstaklega skyggni hvor kosturinn verður fyrir valinu. Ef skyggni er gott þá förum við útsýnisleiðina meðfram Lifrarfjöllum og við Mófellsbætur. Tölur um hækkun miða við þá leið. Og leiðirnar koma aftur saman við ána Hvítmögu og þaðan farið ofan við Kringlumýri, undir Sultarfelli og inn að Hungurfitjum.
B. Ef skyggni er ekki nógu gott verður gengið um Þverárgil og Þverárgilsdrög og komið við í sérstæðum gististað gangnamanna í hellisskúta. Svo er farið yfir Hvítmögu og sömu leið og sú fyrrnefnda. Þarna sparast einhver hækkun, líklega um 100-150 m. Áfram er haldið í skálann í Hungurfitjum þar sem gist verður fyrstu nóttina.
Vegalengd ca 16 km og uppsöfnuð hækkun rúmir 500 m.

Laugardagur 5. ágúst
Við leggjum snemma af stað þennan daginn enda löng dagleið framundan. Frá Hungurfitjum er gengið upp Skyggnishlíðar að Skyggnisvatni, síðan að Laufavatni í Laufahrauni og meðfram Laufafelli að austanverðu. Komið er að Markarfljóti þarna og skemmtilegt að sjá það tærara en það er neðar og þarna er jafnframt myndarlegur foss sem gaman er að skoða. Áfram er gengið með Markarfljóti og að hluta til á vegslóða uns komið er að Dalakofanum þar sem við gistum.
Vegalengd 24 km og 600 m hækkun.

Sunnudagur 6. ágúst
Enn höfum við tvo kosti um að velja varðandi leiðaval og verður það metið út frá ástandi hópsins hvort að þægilegri eða fallegri leiðin verður valin. Fallegri leiðin er aðeins lengri en þá myndum við taka krók í átt að Reykjadölum á leiðinni á Svartakamb. Annars er styttri leiðin upp meðfram Blautukvísl, og upp hlíðarnar á Svartakambi og eftir honum og svo yfir í áttina að Rauðufossafjöllum. Báðar leiðir koma við hjá Auganu, hinni sérkennilega uppsprettu Rauðufossakvíslar og verður ánni fylgt niður fyrir Rauðufossa. Þaðan verður gengið um sléttar grundir yfir í Landmannahelli og gist þar stærsta skálanum.
Vegalengd 18 km og 500 m hækkun (leiðin með króknum gæti farið í 22 km).

Mánudagur 7. ágúst
Á fjórða degi verður gengið frá Landmannahelli á Hellismannaleiðinni til Landmannalauga. Fyrst er það neðan undir Löðmundi meðfram Löðmundarvatni og í grennd við Lifrarfjöll og eftir Dómadalshálsi og yfir fjallshrygginn eða múlann norðan við Stórhöfða. Þaðan um Háölduhraunið og niður Uppgönguhrygg ofan Vondugilja og um Vondugiljaaura og yfir Laugahraun og þá komum við í Landmannalaugar. Þar bíður rútan eftir hópnum.
Vegalengd 17 km og 500 m hækkun.

 

ÆFING
Eins og kemur fram í textanum geta verið einhver frávik á gönguvegalengdum hvern dag eftir leiðarvali og útúrdúrum. Það er mikilvægt að æfa sig fyrir ferðina enda eru þetta fjórir göngudagar í röð og vöðvar og liðir þurfa að vera tilbúnir til að takast á við svona álag dag eftir dag. Takið einhvers konar prógramm vikurnar fyrir ferð með góðri hækkun. Það má til dæmis taka tvær ferðir á viku upp að Steini í Esju og miða við að vera ekki lengur en klukkutíma og tíu mínútur að ná upp að Steininum.

 

TRÚSS
Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera dagpoka með nesti og hlífðarfötum. Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór. Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann.

VERÐ OG BÓKANIR

  • Í skála kostar ferðin kr. 79.000 á mann m/vsk (innifalið staðfestingargjald)
  • Í tjaldi kostar ferðin kr. 62.000 á mann m/vsk (innifalið staðfestingargjald)

 

Innifalið: rúta, trúss, skálagisting í þrjár nætur (eða tjaldsvæði), hafragrautur og kaffi á morgnana og sameiginlegur kvöldmatur, skipulagning og leiðsögn. Þess má geta að öll þurfa að hjálpast að við eldamennsku og frágang.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Athugið að það er ekki í boði að bóka ferð með því að greiða einungis staðfestingargjald. Það er hins vegar hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í sportabler.

Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 12.500 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja dalastigur. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför.

 

Hámarksfjöldi 35 í heild. Lágmarksfjöldi er 20.
Haldinn verður undirbúningsfundur í maí eða byrjun júní þar sem fjallað verður um útbúnað og fyrirkomulag. Leiðsögn er í höndum Einars Skúlasonar.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 12.500 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113