Það er alveg sérstakt að fara um Strandirnar og anda að sér fersku sjávarlofti, finna ilminn af gróðrinum og setja sig í spor þeirra sem háðu þar lífsbaráttuna forðum. Í lok júní og byrjun júlí förum við í fimm daga ferð, þar sem við skoðum Reykjarfjörð (og sundlaugina) fyrsta daginn og tökum svo fimm daga göngu með ströndinni um hin stórkostlegu Drangaskörð, um firði, yfir ár, um fjörur og framhjá eyðibýlum og tóftum. Í þessari ferð verðum við með allt á bakinu, gistum fyrstu nóttina í húsi og tjöldum svo á fallegum stöðum nálægt sjávarsíðunni á leið okkar til byggða.
Leiðsögn er í höndum Einars Skúlasonar.

DAGSKRÁ
- júní sunnudagur – Norðurfjörður
Mikilvægt er að þátttakendur séu mættir norður á Strandir síðdegis eða um kvöldið. Þau sem vilja geta borðað saman í Kaffi Norðurfirði og þar verður spjallfundur í lok máltíðar. Það er frábært að nýta tækifærið og prófa Krossneslaugina fyrir Kaffi Norðurfjörð. Tvö tjaldsvæði eru á svæðinu og einnig eru möguleikar á fjölbreyttri gistingu. Líklega skutlumst við með bíl með viðbótarfarangri eða mat til að geyma í Ófeigsfirði.
- júní mánudagur – Norðurfjörður – Reykjarfjörður
Við tökum bátinn kl. 10 um morguninn norður í Reykjarfjörð. Tökum göngu á svæðinu og svo bíður hin ómótstæðilega sundlaug eftir hópnum. Við gistum öll í gamla húsinu í Reykjarfirði í svefnpokaplássi á góðum dýnum. Sameiginlegur matur um kvöldið, stutt kvöldvaka og hafragrautur og kaffi um morguninn.
- júní þriðjudagur – Reykjarfjörður – Skjaldarbjarnarvík – Bjarnarfjörður
Leggjum í göngu í bítið og vöðum Reykjarfjarðarósinn og förum Sigluvíkurháls yfir í Skjaldarbjarnarvík og þaðan upp Sunndalinn og yfir í Bjarnarfjörð. Fjörðurinn er vaðinn innarlega og náttstaður valinn þar eða utar í firðinum skammt frá Meyjarseli. Vegalengd ca 17-21 km/300 m hækkun.
- júlí miðvikudagur – Bjarnarfjörður – Drangavík
Eftir frágang er haldið af stað. Gengið með ströndinni í áttina að Dröngum og tekið stopp við Húsá þar sem einhverjir geta farið í fótabað í heitri lind. Þaðan er gengið framhjá bæjarhúsum á Dröngum og undir Drangahlíð og Drangaskörðunum frægu og um Signýjargötuskarð á milli dranganna. Þá förum við að nálgast náttstað í Drangavík, þar sem við tjöldum. Vegalengd ca 14-17 km/200 m hækkun.
- júlí fimmtudagur – Drangavík – Ófeigsfjörður
Gengið er um Engines, Eyvindarfjörð og yfir Eyvindarfjarðará, um Hrúteyjarnes og yfir Dagverðará. Þá erum við að koma í Ófeigsfjörð og förum yfir hina fögru og vatnsmiklu Hvalá. Þar staldrar fólk við og fylgist með straumkastinu og flúðunum. Þaðan förum við framhjá bæjarhúsum í Ófeigsfirði og á tjaldsvæðið og njótum þess að prófa vatnssalerni aftur. Vegalengd ca 18,5 km/200 m hækkun.
- júlí föstudagur – Ófeigsfjörður – Norðurfjörður
Eftir að hafa pakkað saman þá höldum við af stað um Brekkuveg milli Seljanesfjalls og Hádegisfjalls í botn Ingólfsfjarðar. Þaðan er gengið að síldarverksmiðjunni og svo út Geitahlíð, fyrir Höfða, yfir Eiðið og niður í Norðurfjörð þar sem við klárum gönguna. Við endum vonandi á því að fá okkur hressingu saman á Kaffi Norðurfirði. Vegalengd ca 14,5 km/400 m hækkun.
LÍKAMLEGT FORM
Hver og einn þarf að vera í formi til þess að bera bakpoka með öllum búnaði og nesti til þriggja daga.
Þetta er því nokkuð krefjandi ferð og mikilvægt að þátttakendur æfi vel vikurnar á undan. Varðandi æfingar er gott að taka tvær ferðir á viku upp að Steini síðustu fimm vikur fyrir göngu eða sambærilegt. Notið bakpokann sem þið farið með á Hornstrandir og hafið 5-10 kg pokanum.
ÚTBÚNAÐUR
Haldinn verður undirbúningsfundur í gegnum Zoom í apríl/maí þar sem fjallað verður um ferðaáætlun, ítarlega um útbúnað og nesti, undirbúning og fleira.
Hér er þó samantekt um það nauðsynlegasta: Þriggja árstíða tjald, svefnpoki og létt einangrunardýna. Bakpoki 50-80 L, göngustafir. Næringarríkt nesti og prímus. Góð skel, húfa, vettlingar, tvö einangrandi lög og innanundirfatnaður úr ull. Göngubuxur sem hægt er að renna skálmum af eða með göngupils. Vaðskór sem geta nýst sem tjaldskór á kvöldin.

VERÐ OG BÓKANIR
Verð fyrir manninn er kr. 66.000 m/vsk
Innifalið: Bátsfar í Reykjarfjörð, gisting eina nótt í húsi í Reykjarfirði, tjaldsvæði í Ófeigsfirði og fararstjórn.
Ekki innifalið: matur eða annað sem er ekki upptalið í innifalið.
Hámarksfjöldi í ferðina er 20 manns og lágmark er 10 manns.
Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Auðvelt er að hlaða niður pdf kvittun úr kerfinu. Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og ekki vaxtakostnaður af slíku.
Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 13.500 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „reykjarfj“. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför (18. maí).
Þegar búið er að bóka ferð þá er hægt að sækja um aðgang að lokuðum hóp á Facebook. Þar verða ýmsar praktískar upplýsingar fyrir ferð og fleira.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 13.500 og er innifalið í heildarverði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja fullgreidda ferð til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með (ferðin þarf að hafa verið greidd að fullu áður).
Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför (18. maí). Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3 dögum fyrir brottför og fram að ferð: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef þarf að fella niður ferð er full endurgreiðsla.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.
