Því miður er uppbókað í ferðirnar tvær en hægt að skrá sig á biðlista inni í bókunarkerfinu.
Við verðum með tvær ferðir að Grænahrygg sumarið 2024. Í báðum ferðum ætlum við að skoða Grænahrygg og fleira fallegt af hlaðborði náttúrunnar að Fjallabaki og verða þær með viku millibili laugardaginn 10. ágúst og laugardaginn 17. ágúst (ef veðurspá er óhagstæð þá er sunnudagurinn til vara í báðum tilvikum). Athugið að ekki er í boði að ganga að Grænahrygg og sömu leið til baka, báðar ferðir hefjast í Kýlingum og enda í Landmannalaugum.
Við tökum rútu frá Reykjavík í bítið og keyrum austur að Fjallabaki og göngum af stað frá Kýlingum. Þaðan er farið um Halldórsgil og Sveinsgil að Grænahrygg. Áfram er haldið meðfram hinum litríku Þrengslum og yfir í Hattver og um Uppgönguhrygg þar sem enn bætir í litadýrðina. Þaðan er farið í hlíðum Skalla og á Reykjakoll þar sem sést í Brandsgilin og yfir Landmannalaugasvæðið. Við lækkum okkur svo niður og göngum á jafnsléttu í lokin inn í Laugar. Alls er gangan ca 20 km og 1100 m uppsöfnuð hækkun.
BROTTFARARSTAÐUR
Við tökum rútu frá bílastæðinu við prentsmiðju Morgunblaðsins og hún leggur af stað kl. 7 að morgni.
Hægt er að koma upp í rútuna við Olís á Selfossi, en þið verðið að láta vita.
Athugið að við verðum með rútuna allan daginn, þannig að það er tilvalið að geyma með tösku þar á meðan við göngum. Í þessari aukatösku geta t.d. verið föt og skór, aukanesti og drykkir.
VEGALENGD OG TÍMI
Vegalengd: ca 20 km
Heildarhækkun: ca 1100 m
Göngutími með stoppum: ca 10 tímar
UNDIRBÚNINGUR
Það þarf að æfa fyrir göngu sem þessa enda er töluverð hækkun á leiðinni auk vegalengdarinnar og þá þarf jafnframt að vaða. Besta leiðin til að æfa er að stunda göngur á fjöll með góðri hækkun. Esjan er upplögð í æfingar og til dæmis hægt að fara á Móskarðshnúka, Smáþúfur, Kerhólakamb eða einfaldlega upp að Steini. Gott er að miða við að minnsta kosti 500 m hækkun í hvert skipti og fara tvisvar í viku síðustu fimm vikur fyrir ferð. Þá er formið orðið gott og forsendur til að njóta ferðarinnar í botn. Gott er að nota búnaðinn í æfingunum sem þið ætlið að nota í ferðinni og muna að hvíla síðustu tvo til þrjá dagana fyrir ferð.
ÚTBÚNAÐUR OG NESTI
Taka þarf góðan fatnað með miðað við veðurspá. Almennt séð er miðað við að taka skelina með (vind- og vatnsþéttar buxur og jakka), vettlinga/hanska og húfu. Betra er að taka vel gengna gönguskó en glænýja og vaðskó að auki (t.d. teva, crocs, gamla strigaskó eða annað sem hentar). Gott að vera í ull að ofan en ef þið eruð í göngubuxum þá eru ullarbuxur óþarfar (nema að þið ætlið að ganga í skeljabuxunum og viljið vera í ull þar fyrir innan og sleppa göngubuxum). Takið með göngustafi, góðan dagspoka, aukaúlpu t.d. dún eða primaloft til að klæðast í nesti og aukasokka til að hafa möguleika á að skipta í miðri göngu. Það eru lækir á leiðinni, en eflaust gott að hafa hitabrúsa með kakó/te/kaffi, nesti sem er ykkur að skapi og dugar alla gönguna og nasl til að stinga upp í sig á leiðinni (hnetur, rúsínur, súkkulaði).
Takið með plástra og verkjalyf. Gætið þess að pakka í plastpoka eða vatnsþétta poka ofan í bakpokann ef það skyldi rigna.
Þetta er löng ganga og því tökum við að sjálfsögðu nesti tvisvar til þrisvar, stoppum öðru hvoru og gætum þess að fara á skynsamlegum hraða.
UNDIRLAG
Við göngum á slóðum á hryggjum og í grýttu og yfir ár. Þetta er fjölbreytt færi og því er betra að vera í gönguskóm en í léttum hlaupaskóm. En best er að vera í skóm sem ykkur líður vel í en gætið þess þó að botninn á skónum sé grófur. Munið eftir vaðskóm!
VERÐ OG BÓKANIR
Verð í ferðina er kr. 28.000 m/vsk
Innifalið: Rúta frá Reykjavík og til baka og leiðsögn.
Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið smellið á tengilinn, skráið ykkur inn og veljið það námskeið sem passar, greiðið og þá er allt klappað og klárt). Hægt er að prenta út kvittun í kerfinu og nýta til niðurgreiðslu stéttarfélags- eða vinnustaðar. Athugið að færslur frá bókunarkerfinu á bankareikningi eru merkt sem „æfingagjöld“.
Þá er einnig mögulegt að greiða með millifærslu. Greiðsla jafngildir bókun og merkið færsluna „Græni1“ eða „Græni2“. Greiðið inn á reikning 0515-26-530314 kt. 530314-0650 og sendið staðfestingu á einarskula@hotmail.com.
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 9.000 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. sex vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Afbókanir: Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.