Helgarferð í Þakgil 2026

Helgina 10.- 12. júlí ætlum við að kíkja austur í Þakgil og ganga skemmtilegar leiðir. Margir hafa komið á þennan fallega gististað en færri hafa gengið um alla þessa dali, hálsa, gil og hvað þá í grennd við Mýrdalsjökulinn.
Við stefnum á kvöldgöngu á föstudeginum, góða dagsgöngu á laugardeginum og tvær göngur á sunnudeginum áður en við förum heim á leið. Hægt er að taka þátt í öllum göngunum eða sleppa einhverjum göngum allt eftir því hvað hverjum og einum hentar.
Gengið er með dagpoka. Val er um að gista í tjaldi á tjaldsvæðinu í Þakgili eða nýta aðra gistimöguleika í nágrenninu. Hægt er að bóka gistingu í smáhýsunum í Þakgili og einnig kæmi til greina að gista t.d. á Hótel Kötlu við Höfðabrekku en þaðan er um 40 mínútna akstur í Þakgil. Athugið að hver og einn þarf að bóka sína eigin gistingu og er gisting ekki innifalin í verðinu. Leiðsögn annast Kristín Silja Guðlaugsdóttir.

DAGSKRÁ

Föstudagurinn 10. júlí – kvöldganga
Við komum saman í Þakgili og kl. 17 sameinumst við í bíla og keyrum í fimm til tíu mínútur, leggjum bílunum og göngum af stað. Leiðin liggur annars vegar í Remundargilið þar sem sjá má glæsilegan foss og svo göngum við til baka og upp á útsýnisstað við Vatnsrásarhöfuð þar sem sést yfir að Hafursey og í áttina að jöklinum.
Vegalengd er ca 8 km og uppsöfnuð hækkun ca 440 m. Göngutími er ca 3 tímar.

Laugardagurinn 11. júlí – dagsganga
Þennan dag ætlum við að ganga fallega leið uppeftir þar sem við sjáum græna dali, gil og mela og jökulinn. Við göngum að Miðfellshelli þar sem gangnamenn lágu við á haustin. Svo byrjar hækkunin smátt og smátt upp Miðafrétt austan Miðtungugils og inn að fossinum Leyni. Þá upp Skerin þar sem er staldrað við góða stund til að fylgjast með fallegu sjónarspili þar sem stór ísstykki hrynja og fossar falla niður í lægðina þar sem Huldujökull er. Þaðan er farið niður Austurafrétt um Árbotna og Vestureggjar og aftur inn í Þakgil.
Vegalengd er ca 16-17 km og uppsöfnuð hækkun um 800 m. Göngutími ca. 6-8 tímar.

Sunnudagurinn 12. júlí – tvær styttri göngur
Gert er ráð fyrir að fólk pakki saman og svo er keyrt í halarófu niður á þjóðveg. Þennan dag ætlum við að ganga á tvö fell á Mýrdalssandi. Annars vegar Hjörleifshöfða og hins vegar Hafursey.

Hjörleifshöfði er móbergshryggur á suðvestanverðum Mýrdalssandi og nafn hans tengist Hjörleifi fóstbróður Ingólfs Arnarsonar eins og segir í Landnámu. Við göngum frá bílastæðinu upp að Hjörleifshaugi og þaðan niður Hjörleifshraun og fram á brún Bæjarbrekku við gamla bæjarstæðið. Þar sést vel yfir sandflæmið niður að strönd. Við göngum til baka niður Klifið og inn með rótum Sláttubrekku að upphafsstað. Vegalengd ca 4 km og uppsöfnuð hækkun ca 240 m. Göngutími ca 2 tímar.

Við keyrum svo um ca 20 mín vegalengd að Hafursey, sem er móbergsfjall á ofanverðum Mýrdalssandi, að nokkru klofið í tvennt af svonefndu Klofgili. Vestan gilsins er áfangastaður okkar Skálarfjall (582 m) og gert er ráð fyrir að ganga sömu leið fram og til baka. Af toppnum er óviðjafnanlegt útsýni til allra átta og munum við m.a. sjá yfir göngusvæði laugardagsins frá nýju sjónarhorni. Vegalengd ca 5 km og uppsöfnuð hækkun um 480 m. Göngutími ca 3 tímar.

ÆFINGAR
Gönguleiðirnar eru á færi flestra, þó er nauðsynlegt að vera í góðu gönguformi sérstaklega fyrir göngu laugardagsins. Æfingar geta falið í sér til dæmis að taka vikulegar göngur með dagpoka á bakinu upp að Steini í Esju og tvær ferðir á Úlfarsfell – ef þið gerið sex svona sett þá munið þið njóta þess að fara í svona ferð.

UNDIRBÚNINGSFUNDUR
Haldinn verður undirbúningsfundur í gegnum Zoom í apríl/maí þar sem farið verður nánar í ferðaáætlunina, útbúnað, undirbúning og fleira. Enginn matur er innifalinn í verðinu en ef áhugi er fyrir hendi væri hægt að sameinast um að grilla á laugardagskvöldinu. Einnig væri hægt að sameinast á kvöldvöku og njóta saman kyrrðarinnar í hinu stórkostlega Þakgili á laugardagskvöldinu.

 

VERÐ OG BÓKANIR

Verð kr. 31.000 á mann m/vsk

Innifalið: undirbúningsfundur, skipulagning og leiðsögn.


Athugið að þátttakendur mæta á eigin bílum, en við munum skipuleggja sameiningu í bíla.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði.
Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 6.100 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja lonsoraefifyrri. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför (29. maí).

Þegar búið er að bóka ferð er hægt að sækja um aðild að lokaða hópnum. Þar verða margvíslegar upplýsingar fyrir ferð.:
Hámarksfjöldi í ferðina er 30 manns. Lágmarksfjöldi 10 manns.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 6.100 og er innifalið í heildarverði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja fullgreidda ferð til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með (ferðin þarf að hafa verið greidd að fullu áður).
Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför (30. maí). Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.

Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3 dögum fyrir brottför og fram að ferð: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef þarf að fella niður ferð er full endurgreiðsla.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

 

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113