Í byrjun júní ætlum við í ferð vestur á firði til þess að skoða margar af helstu náttúruperlum Vestfjarða og ganga ótrúlega fallegar leiðir. Við göngum inn með Vatnsdalsvatni í friðlandinu í Vatnsfirði, fara gömlu leiðina yfir Fossheiði frá Arnarfirði að Barðaströnd, og ganga meðfram öllu Látrabjargi, Keflavíkurbjargi og yfir á Rauðasand. Á þessum tíma er fuglalífið í hámarki, gróðurinn er búinn að taka lit að mestu og farið að styttast í sumarsólstöður. Þetta verður stórkostleg ferð.
Hægt verður að velja á milli þess að vera í hótelgistingu, í svefnpokaplássi eða í tjaldi. Við förum í rútu frá Reykjavík og hún nýtist vel í gönguferðunum sem eru flestar frá einum stað til annars. Við leggjum af stað á uppstigningardag og því þarf aðeins að taka frí einn virkan dag.
Þarna er tækifæri til að hefja sumarið í fallegu umhverfi og í góðra vina hóp.
DAGSKRÁIN
29. maí Keyrt frá Reykjavík og gengið í Vatnsfirði
Við keyrum af stað frá Reykjavík kl. 9. Nokkur stutt stopp verða á leiðinni en lengsta stoppið verður í friðlandinu í Vatnsfirði. Þá munum við ganga inn með Vatnsdalsvatni, upp með Lambagili og svo niður með Þingmannaá. Vegalengd er ca 9 km og 300 m hækkun.
Svo höldum við áfram inn í Breiðavík og komum okkur fyrir. Það er tilvalið að taka kvöldgöngu niður á strönd.
30. maí Geldingaskorardalur – Bjargtangar (Látrabjarg endilangt)
Við hefjum daginn snemma í morgunverðarhlaðborði og fáum svo far með rútunni að upphafsstað göngu við Geldingaskorardal og göngum í vesturátt meðfram Látrabjargi. Sagan verður sögð af frækilegu björgunarafreki sem var unnið í desember 1947 þegar togarinn Dhoon strandaði undir bjarginu. Við getum átt von á því að komast í eins til tveggja metra fjarlægð frá lunda, sjá töluvert af álku enda er þetta stærsta álkubyggð í heimi og munum sjá mikinn fjölda annarra fuglategunda. Það er sniðugt að taka með sér kíki þennan dag því að við munum staldra oft við á leiðinni og fylgjast með fuglinum. Rútan mun bíða okkar við vitann á Bjargtöngum. Gangan þennan dag er ca 10 km og uppsöfnuð hækkun um 250 m.
Þau sem vilja fara út á Látrahálsi í bakaleiðinni. Við göngum gömlu leiðina niður í fjöru, kíkjum á tóftir sjóbúðanna þar og göngum svo í fjörunni að gististaðnum okkar í Breiðavík. Gönguvegalengd er rúmir 5 km. Um kvöldið verðum við með kvöldvöku.
31. maí Fossfjörður – Barðaströnd um Sandsheiði
Endurtökum morgunverðarstemningu frá deginum áður og fáum svo far með rútunni í Fossfjörð. Eftir að hafa kíkt á fossinn þá leggjum við á Fossheiðina og göngum vel varðaða leið yfir á Barðaströnd um Sandsheiði þar sem við hittum rútuna aftur og stefnum á því að enda í Krosslaug á Laugarnesi við Birkimel áður en við keyrum aftur í Breiðavík. Vegalengd göngu er 15-16 km og 500 m hækkun.
1. júní Látraheiði – Keflavík – Rauðasandur og keyrt suður
Við hefjum daginn eins og fyrri daginn í morgunverðarhlaðborði, fáum hitabrúsa okkar fyllta af kaffi eða heitu vatni og smyrjum einfalt nesti. Þau sem eru í tjöldum þurfa að taka þau saman og við hlöðum svo öllum okkar farangri um borð í rútuna. Svo fáum við far að sama stað og við hófum göngu daginn áður en göngum nú eftir Látraheiði í hina áttina til Keflavíkur og Rauðasands. Í Keflavík eru skýrar minjar um búsetu og einnig slysavarnarskýli og við skoðum það vel. Svo förum við yfir Kerlingarháls og niður á Rauðasand. Þar munum við ekki flýta okkur og jafnvel fara úr sokkum og skóm og vaða í flæðarmálinu. Við hittum svo fyrir rútuna aftur og keyrum suður til Reykjavíkur með kvöldmatarstoppi. Komum svo síðla kvölds til Reykjavíkur.
Vegalengd þennan dag er ca 16 km og uppsöfnuð hækkun ca 350 m.
FARARSTJÓRN
Einar Skúlason og Hákon Ásgeirsson verða fararstjórar. Hákon var landvörður til nokkurra ára á svæðinu og Einar hefur margra ára reynslu í fararstjórn á þessu svæði og víðar um landið.
UNDIRBÚNINGUR
Það þarf að æfa fyrir fjögurra daga ferð. Best er að setja upp æfingaplan og nota vegalengd og hækkun til að þjálfa vöðva og þol. Á höfuðborgarsvæðinu henta Esjan, Úlfarsfell og Helgafell ágætlega til æfinga. Gott er að miða við fimm ferðir upp að Steini á síðustu fimm vikum fyrir ferð eða 12 ferðir upp á Úlfarsfell. Munið að hvíla síðustu tvo dagana fyrir ferð.
ÚTBÚNAÐUR
Eins og oft áður skipta skórnir mestu máli, að það sé grófur sóli og vatnsvörn og gott að hafa sokka til skiptana. Klæðist ull eða gerviefnum og skiljið bómull eftir heima. Það er hægt að vera í léttum göngubuxum og einangrandi að ofan og svo með góða skel, bæði buxur og jakka. Húfa og vettlingar eiga að vera til staðar. Fínt að hafa stafi ef þið eigið slíka og gott að hafa plástra í pokanum.
Haldinn verður undirbúningsfundur í apríl þar sem betur verður fjallað um ferðaáætlun, útbúnað og fleira.
VERÐ OG BÓKANIR
- Gisting í uppbúnu tveggja manna herbergi með sér baðherbergi kostar kr. 124.000.
- Gisting í uppbúnu tveggja til fjögurra manna herbergi með sameiginlegu baðherbergi kr. 108.000
- Svefnpokapláss í tveggja manna herbergi kostar kr. 96.000
- Tjaldgisting kostar kr. 83.000
Innifalið: Rúta frá Reykjavík og til baka, gisting/svefnpokapláss/tjaldsvæði í þrjár nætur, morgunverður og leiðsögn.
Ekki innifalið: Matur sem er ekki talinn upp og drykkir, aðgangseyrir í sundlaugina við Birkimel eða annað sem er ekki talið upp sem innifalið.
Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Auðvelt er að hlaða niður pdf kvittun úr kerfinu. Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og ekki vaxtakostnaður af slíku.
Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 18.500 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda þarf tölvupóst á einarskula@hotmail.com og taka fram hvernig gisting valin. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför (17. apríl).
Þegar búið er að bóka ferð þá er hægt að sækja um aðgang að lokuðum hóp á Facebook. Þar verða ýmsar praktískar upplýsingar fyrir ferð og fleira.
https://www.facebook.com/groups/958436056209280
SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 18.500 og er innifalið í heildarverði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja fullgreidda ferð til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með (ferðin þarf að hafa verið greidd að fullu áður).
Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför (17. apríl). Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3 dögum fyrir brottför og fram að ferð: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef þarf að fella niður ferð er full endurgreiðsla.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.