Laugavegur um versló 2025

Við ætlum að fara hina klassísku leið um Laugaveginn á milli Landmannalauga og Þórsmerkur um verslunarmannahelgina. Þessi þriggja daga trússaða ferð er hönnuð til þess að fara ekki út fyrir frídaga og er upplögð fyrir þau sem vilja hafa valkost við útihátíðir. Sérstök athygli er vakin á afslætti fyrir 18 ára og yngri.
Leiðin er ótrúlega fjölbreytt og er farið um hraun, hásléttur, jarðhitasvæði, mikla litadýrð, snjóbreiður, svarta sanda og skóglendi. Útsýnið er margbreytilegt og sést til jökla og margra fallegra fjalla. Enginn fer þessa leið án þess að vera snortinn af fegurðinni.

DAGSKRÁ

Laugardagur 2. ágúst: Reykjavík – Landmannalaugar – Álftavatn
Brottför frá Reykjavík er kl. 7 og komið er upp í Landmannalaugar um kl. 10:30 og stoppað í hálftíma þar til að undirbúa brottför. Svo er gengið af stað og farið um Laugahraun, hjá Stórahver og staldrað við hjá skálanum í Hrafntinnuskeri. Þaðan er farið um hrygginn milli Kaldaklofsfjalla og Jökulgils og niður Jökultungur. Grashagakvíslina þarf að vaða eða stikla og þaðan er þægileg leið að Álftavatni þar sem trússkerran bíður eftir okkur. Gönguvegalengd þennan dag er um 24 km.

Sunnudagur 3. ágúst: Álftavatn – Emstrur
Trússi komið fyrir í trússkerrunni og lagt af stað snemma. Frá Álftavatni er gengið í Hvanngil og þarf að vaða Bratthálskvíslina sem er lítið mál. Farið er á göngubrú yfir Kaldaklofskvísl en svo þarf að vaða Bláfjallakvísl. Nú er komið að gróðursnauðu svæði að brúnni yfir Innri-Emstruá og þaðan er gengið á söndum nánast alla leiðina að skálanum í Botnum í Emstrum þar sem trússkerran bíður. Gönguvegalengd þennan dag er um 15 km.

Mánudagur 4. ágúst: Emstrur – Húsadalur í Þórsmörk – Reykjavík
Trússi komið fyrir í trússkerrunni og lagt af stað. Frá Botnum er gengið fyrir Syðri-Emstruárgljúfur sem nær langleiðina að Entujökli. Brattur krákustígur er niður að göngubrúnni á Syðri-Emstruá og er fallegt að fara yfir göngubrúna í gljúfrinu. Eftir ármótin á Markarfljóti og Syðri-Emstruá hefst ganga suður Almenninga. Slyppugil og Bjórgil verða á vegi okkar og svo er göngubrú yfir Ljósá. Handan við hæðarhrygginn Kápu er Þröngá og hana þarf að vaða og eftir það er gengið í skóglendi niður í Húsadal. Þar er veitingastaður og ýmis önnur þjónusta. Við verðum sótt þangað seinnipartinn og komum í bæinn síðla kvölds. Gönguvegalengd þennan dag er um 15 km.

NESTI OG ÚTBÚNAÐUR
Athugið að ofgera ekki vistum í trúss og sameinast um kælibox. Mælt er með því að undirbúa nesti áður en ferðin hefst og hafa það sem mest tilbúið. Það sparar tíma í ferðinni og gefur meira færi á að njóta. Haldinn verður undirbúningsfundur í maí til að fara yfir dagskrá, útbúnað, nesti og mat og fleira gagnlegt. Við skoðum það hvort grundvöllur er fyrir sameiginlegum kvöldmat.

ÆFINGAR
Gert er ráð fyrir að fólk sé í nægilega góðri æfingu til að ganga alla þrjá dagana. Æfingaprógramm getur t.d. falið í sér að taka eitt Úlfarsfell og eitt Helgafell í Hafnarfirði í hverri viku í apríl og maí og fara einu sinni í viku upp að Steini og taka tvöfalt Úlfarsfell í hverri viku í júní og júlí. Gott er að miða við að komast upp að Steini á innan við 70 mínútum í júní án þess að vera uppgefinn eða finna fyrir eftirköstum þess um kvöldið eða daginn eftir. Munið að æfa ávallt með bakpoka. Þau sem eru í góðri æfingu njóta ferðarinnar mun betur fyrir bragðið.

VERÐ OG BÓKANIR

Verð í skála er kr. 114.000 m/vsk
Verð án skála kr. 79.000 m/vsk.

Innifalið er far í rútu frá Reykjavík til Landmannalauga og aftur til Reykjavíkur frá Þórsmörk, trúss og fararstjórn/leiðsögn, hafragrautur og kaffi á morgnana.
Ekki eru innifalin tjaldsvæða- eða aðstöðugjöld, kvöldmatur eða nesti.
Athugið að 15% afsláttur er fyrir 18 ára og yngri og fyrir elli- eða örorkulífeyrisþega.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið smellið á bóka núna eða afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn sem notendur, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Auðvelt er að hlaða niður pdf kvittun úr kerfinu. Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og ekki vaxtakostnaður af slíku.
Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 19.500 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „laugavegur“ – hafið samband ef um skálagistingu er að ræða. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför (um miðjan júní).
Hámarksfjöldi í ferðina er 35 manns og lágmark er 20 manns.

Þegar búið er að bóka ferð þá er hægt að sækja um aðgang að lokuðum hóp á Facebook. Þar verða ýmsar praktískar upplýsingar fyrir ferð og fleira.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 19.500 og er innifalið í heildarverði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja fullgreidda ferð til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með (ferðin þarf að hafa verið greidd að fullu áður).
Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför (miðjan júní). Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.

Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3 dögum fyrir brottför og fram að ferð: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef þarf að fella niður ferð er full endurgreiðsla.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

Share this post

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113