Sumarsólstöður verða 21. júní og í tilefni af því verður farið í næturgöngu á Snæfellsjökul á þessum bjartasta tíma ársins. Það er óviðjafnanlegt að upplifa sólskinið á jöklinum um miðja nótt í góðum hóp. Þannig að við förum á föstudagskvöldinu 21. júní en til vara verður kvöldið eftir ef veður hamlar för á föstudegi.
Vegalengd er ca 10 km og hækkun um 1000 m. Gert er ráð fyrir að gangan taki um sjö tíma og klárist um fjögurleytið um nóttina.
Jón Bjarnason verður fararstjóri. Hann er virkur í Flugbjörgunarsveitinni og hefur farið með Vesen og meira brölt í fjölbreyttar jökla- og háfjallaferðir og auk þess farið víða á jöklaslóðir á eigin vegum, í forsvari fyrir hópa eða með björgunarsveitarmeðlimum.
Útbúnaður
Öll þurfa að mæta með jöklabúnað: gönguöxi, jöklabroddar, belti og læsta karabínu (hægt að fá leigt á kr. 5000 sjá að neðan). Að öðru leyti er það fatnaður í samræmi við aðstæður, húfa, vettlingar, legghlífar, sólgleraugu fyrir birtustig á jöklinum, gott nesti og nasl og heitt að drekka á brúsa og viðbótardrykkir (lágmark 2 l af vökva alls).
Athugið að ef ykkur vantar jöklabúnaðinn þá getum við útvegað sett og komið með þau á staðinn fyrir göngu.
Fyrirkomulag
Fólk fer á eigin vegum frá Reykjavík. Athugið að það er amk tveggja tíma keyrsla frá Reykjavík og því þarf að leggja af stað í síðasta lagi kl. 18 ef ætlunin er að stoppa á leiðinni. Ef fólk vill vera í samfloti þá er lagt til að fólk hittist á bílastæðinu við Húsgagnahöllina og sameinist í bíla og leggi af stað kl. 17:30.
Þau sem vilja hittast á Arnarstapa við tjaldsvæðið og fara af stað þaðan kl. 20:30. Keyrt verður upp á Jökulháls (fært öllum bílum) og lagt á bílastæði þar. Einnig er hægt að mæta beint þangað. Farið verður af stað í sjálfa gönguna kl. 21. Athugið að þið verðið að keyra upp á Jökulháls sunnan megin (sömu megin og Arnarstapi), ekki er víst að það verði fært norðan megin (frá Ólafsvík).
Lágmarksfjöldi er 8 manns. Búið er að bæta við línum og ekki verður fjölgað meira.
Undirbúningur
Gert er ráð fyrir að þátttakendur séu í formi fyrir göngu af þessu tagi og hafi gengið reglulega eða stundað aðra líkamsrækt. Tilvalinn undirbúningur er að ganga fjórum til fimm sinnum upp að Steini síðustu þrjár vikurnar fyrir göngu. Gott er að hvíla í tvo daga fyrir sjálfa gönguna.
Verð er kr. 17.000
Ef þið viljið fá lánaðan jöklabúnað þá er verðið samtals kr. 22.000
Innifalin er leiðsögn. Fólk ber sjálft ábyrgð á að koma sér á upphafsstað, en hægt er að skipuleggja samnýtingu bíla á viðburðinum á Facebook.
Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn og hvort þið viljið jöklabúnað að auki, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Athugið að það er ekki í boði að bóka ferð með því að greiða einungis staðfestingargjald. Það er hins vegar hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og ekki vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum.
Ef þið lendið í vandræðum með sportabler þá er hægt að greiða í ferðina með því að millifæra fyrir manninn á reikning 0515-26-530314 kt. 530314-0650 og senda staðfestingu á einarskula@hotmail.com (munið að gera þarf upp ferð í síðasta lagi 10. maí).
Skilmálar
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 4.000 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.