Það er uppbókað í ferðina (9/3 kl. 16:30).
Nú er komið að því að ganga um ævintýraslóðir milli Núpsstaðarskógar og Skaftafells. Þarna eru miklar andstæður í náttúrunni, jöklar og gróðursæl svæði, melar, sandar og tröllslegar klettamyndanir. Þetta er krefjandi ganga með allt á bakinu en launin eru ríkuleg í landslagi, náttúruperlum og einstakri reynslu. Æfa þarf vel fyrir þessa ferð til að ganga með allt á bakinu um langar dagleiðir.
Fararstjórar verða Jón Trausti og Bjarki sem hafa lengi starfað með Veseni og vergangi.
DAGSKRÁ
Föstudagur 25. júlí – Skaftafell – Núpsstaðaskógur – Skessutorfugljúfur
Hópurinn hittist í Skaftafelli kl. 9 og við sameinumst í bíla og keyrum í halarófu að bílastæði við Núpsstaðaskóg (nánar verður fjallað um skipulag bílamála á undirbúningsfundi). Við göngum um skóginn, meðfram Núpsá og sjáum tvílita fossinn og förum enn lengra upp með ánni. Sjáum jafnframt Skessutorfugljúfur uns við stoppum í náttstað og setjum upp tjöld. Vegalengd ca 17 km og hækkun ca 700 m
Laugardagur 26. júlí – Skeiðarárjökull
Við þverum jökulinn og nýtum megnið af deginum í það. Njótum þess að sjá fjölbreytta ásýnd skriðjökulsins og umhverfisins. Komum okkur svo fyrir á tjaldstað í Skaftafellsfjöllum. Vegalengd ca 18 km og hækkun ca 400 m.
Sunnudagur 27. júlí – Skaftafellsfjöll – Morsárdalur – Skaftafell
Eftir að hafa pakkað saman förum við yfir Skaftafellsfjöllin og stöldrum við á Blátindi og njótum stórkostlegs útsýnis (og veltum fyrir okkur hvernig var að smala þetta svæði). Þaðan förum við niður í gróðursælan Bæjarstaðaskóg og um Morsárdalinn og áfram í Skaftafell. Svo skutlum við bílstjórum til að sækja bílana í Núpsstaðarskógi. Vegalengd ca 20 km og hækkun ca 500 m.
UNDIRBÚNINGUR
Það er þægilegt að æfa sig í Esjunni fyrir svona ferð. Það er óþarfi að æfa með fulla bakpoka en skynsamlegt að nota 5-10 kg í æfingaferðum, þ.e. byrja með 5 kg og þyngja smám saman upp í 10 kg. Það má hugsa sér að taka gönguferðir með hækkun upp á 4000 metra og skipta því niður á fimm vikur.
ÚTBÚNAÐUR
Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í maí þar sem betur verður fjallað um ferðaáætlun, ítarlega um útbúnað og nesti, undirbúning og fleira. Hér er þó samantekt um það nauðsynlegasta:
Þriggja árstíða tjald, svefnpoki og létt einangrunardýna. Bakpoki 50-80 L, göngustafir, jöklabúnaður (belti, karabína, öxi og fjallabroddar). Næringarríkt nesti og prímus. Góð skel, húfa, vettlingar, tvö einangrandi lög og innanundirfatnaður úr ull. Göngubuxur sem hægt er að renna skálmum af eða með göngupils. Vaðskór sem geta nýst sem tjaldskór á kvöldin. Við getum leigt jöklabúnað fyrir sanngjarnt verð. Gott er að deila tjaldi og prímus með öðrum til að létta burð.
VERÐ OG BÓKANIR
Verð fyrir manninn er kr. 44.000 m/vsk
Innifalið: Innifalið er skipulag og fararstjórn.
Ekki innifalið: gisting eða tjaldsvæði við Skaftafell.
Hámarksfjöldi í ferðina er 20 manns og lágmark er 10 manns.
Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn sem notendur, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Auðvelt er að hlaða niður pdf kvittun úr kerfinu. Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og ekki vaxtakostnaður af slíku.
Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 10.500 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „nups“. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför (13. júní).
Þegar búið er að bóka ferð þá er hægt að sækja um aðgang að lokuðum hóp á Facebook. Þar verða ýmsar praktískar upplýsingar fyrir ferð og fleira.
SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 10.500 og er innifalið í heildarverði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja fullgreidda ferð til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með (ferðin þarf að hafa verið greidd að fullu áður).
Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför (13. júní). Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3 dögum fyrir brottför og fram að ferð: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef þarf að fella niður ferð er full endurgreiðsla.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.