Hengilssvæðið er ótrúlega fjölbreytt landsvæði með móbergshryggjum, misgengisdölum og giljum, hveravirkni og grænum blettum sem undirstrika hið dökka berg. Í þessari ferð ætlum við að skoða sýnishorn af þessu öllu og virða fyrir okkur útsýni í átt að Þingvallavatni og fjöllunum umhverfis. Við göngum meðal vindsorfinna móbergskletta, meðfram mosavöxnum og skriðurunnum hlíðum, um hveragil og sandauðnir. Í seinni hluta göngunnar eykst gróður smám saman og við endum í skógi vöxnu umhverfi.
Gangan verður farin laugardaginn 27. júní. Tölvupóstur verður sendur þátttakendum á fimmtudegi fyrir ferð með upplýsingum um útbúnað, veðurspá og fleira hagnýtt.
Einar Skúlason leiðir gönguna.

LÝSING Á LEIÐINNI
Við leggjum af stað í Dyradal og fylgjum stikuðum slóða um Dyrnar og Skeggjadal á Kýrdalshrygg, þræðum hlíðar undir Nesjaskyggni og dáumst að útsýni til norðurs yfir Þingvallavatn og nágrenni. Við sjáum hveravirkni í Nesjalaugargili og Hagavíkurlaugum og í framhaldi göngum við meðfram dökkum og vindsorfnum Sandklettunum. Þar er komið inn á gömlu kaupstaðarleið Hagavíkurbænda og henni fylgt nokkurn veginn á leiðarenda. Fyrst um sandauðnina Sandskeið á milli Sandkletta og Krossfjalla og yfir Sandklif í faðm gróðurs milli Stangarhálsins og Hvíthlíðar. Að lokum er gengið um kjarri vaxið umhverfi Lómatjarnar og gangan endar ofan við Hagavík skammt frá Þingvallavatni.
Mögulega munum við ganga í hina áttina og byrja við Hagavík ef vindátt reynist hagstæðari þannig.
VEGALENGD OG TÍMI
Vegalengd göngu er ca 16 km og uppsöfnuð hækkun á leiðinni er ca 400 m. Göngutími með stoppum er ca 6-7 tímar.
Gert er ráð fyrir að þátttakendur séu í æfingu til að takast á við svona göngu. Gott er að miða við að geta farið upp að Steini í sumarfæri á klukkutíma og korter.
BROTTFARARSTAÐUR
Brottför frá Hádegismóum kl. 8:30 (fólk leggur bílum á bak við prentsmiðju Morgunblaðsins).
Rútan skutlar okkur að upphafsstað göngu og sækir okkur á endastað. Hægt er að geyma aukadót eins og t.d. skó, sokka eða önnur föt eða aukanesti í rútunni á meðan við göngum og því hægt að komast í það aftur þegar við komum að rútunni í lokin. Við getum gert ráð fyrir að koma síðdegis í bæinn eftir göngu.

VERÐ OG BÓKANIR
Verð í ferðina er kr. 17.000 m/vsk
Innifalið er rútuferðin fram og til baka frá Reykjavík og leiðsögn.
Bókanir fara fram á https://www.abler.io/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í Abler. Ef þið lendið í vandræðum með innskráningu þá eru leiðbeiningar hér.
MILLIFÆRSLA: Það er mögulegt að greiða með millifærslu. Greiðsla jafngildir bókun og merkið færsluna „Dyra“. Greiðið inn á reikning 0515-26-530314 kt. 530314-0650 og sendið staðfestingu á einarskula@hotmail.com. Munið að senda netfangið ykkar svo hægt sé að hafa samband fyrir göngu.
Lágmarksfjöldi 20 manns og hámarksfjöldi 35 manns.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 3.000 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina/sætið til nýs farþega ef fargjald hefur verið að fullu greitt áður og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef ferðin er felld niður er hún endurgreidd.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.
