Umgengni og umhverfi

Almannaréttur felur í sér leyfi til að fara um land og njóta náttúrunnar. Þeim rétti fylgir sú ábyrgð að við göngum vel um og gætum þess að spilla engu. Virðum hin fjögur L: líf og land, loft og lög.

Við erum hluti af náttúrunni og almenn umgengnisregla er að fara um án ummerkja. Sem dæmi má nefna:

– að taka bara ljósmyndir. Leyfum blómum, steinum og öðru að vera áfram óhreyft í sínu umhverfi.

– skilja aðeins eftir fótspor. Skiljum ekki eftir ávaxtahýði eða annað lífrænt á jörðinni. Það tekur tíma að brotna niður, stingur í augu lengi á eftir. Auk þess á þetta ekki heima í náttúrunni og því sjálfsagt að taka með sér allar umbúðir, lífrænar og ekki, aftur heim til að flokka.

– skiljum við náttúruna í betra standi en tókum við. Tínum upp rusl ef það verður á vegi okkar. Forðumst mikið rask á gróðri.

 

 

Hundar í göngu

Hundar eru velkomnir í göngur á vegum Vesens og vergangs ef þeir eru góðir í hóp, líði vel innan um aðra hunda og ókunnugt fólk. Mikilvægt er að allir fái að njóta sín í göngu og fyllsta öryggis sé gætt. Það verður að hafa taum með og eru hundaeigendur t.d. hvattir til að nota hann ef aðstæður krefjast fullrar einbeitingar göngumanns, svo sem bratt einstigi eða krefjandi er að fóta sig. Stundum er heppilegra ef hundaeigandi er fremst með fararstjóra svo að hundurinn leiti ekki ítrekað inn í hópinn enda getur hann þvælst fyrir fótum göngufólks. Sömuleiðis viljum við borða nesti óáreitt og svo er minnt á þá sjálfsögðu reglu að hirða upp úrgang eftir hundinn. Liggi gönguleið í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði er gott að hafa hund í taumi eða leyfa honum að vera heima frá slíkri gönguferð.

 

 

Marka spor

Við reynum eftir fremsta megni að halda okkur innan göngustíga eða slóða. Ef leið liggur óhjákvæmilega um mosabreiður eða annan viðkvæman gróður verum þá varkár í spori. Sé óvarlega gengið um mosabreiður þá tætast þær upp og það tekur ár eða áratugi fyrir mosann að jafna sig. Á sumrin smellum við töppum undir göngustafi. Þessi tappi fylgir stundum stöfum við kaup en alltaf hægt að kaupa sérstaklega. Tappinn fer yfir oddinn og stoppar hann í að marka í gróðurþekju. Sömuleiðis reynum við að taka tillit til aðstæðna þegar tekur að vora og aurbleyta er mikil. Fyrst og fremst snýst þetta um að vernda gróður og stíga á meðan frost fer úr jörðu.
Skiljum ekki eftir okkur né okkar fararskjóta djúp spor, hjólför, rusl eða önnur verksummerki. Lögum til eftir okkur eins og hægt er. Við skiljum landið eftir í sama ásigkomulagi eða betra svo að allir fái notið góðs af. Sem dæmi má líka viðhalda fáförnum göngustígum og koma í veg fyrir slys með því að ýta til hliðar stóru grjóti úr götunni. Oft hrynur úr skriðum í stígana eða frostlyfting á sér stað, en það er sjálfsagt viðhald að okkar hálfu að taka þann stein úr götunni.

 

 

Rusl í náttúrunni

Það er óskrifuð regla allra sem ganga um landið að ganga vel um það. Það er, að skilja ekki eftir neitt rusl. En það getur gerst að við finnum rusl í náttúrunni og svo lengi sem við höfum pláss í bakpokanum er sjálfsagt að taka það með til byggða eða í næstu ruslatunnu. Við minnum á að lífrænir nestisafgangar eru líka rusl, tökum eggjaskurn og brauðskorpu með heim. Bananahýði á svo sannanlega ekki heima í íslenskri náttúru.

 

 

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113