Eyðibyggðir austan Hornbjargs 2025

Við förum í ævintýraferð um friðlandið á Hornströndum 30.júní til 4. júlí með allt á bakinu. Gistum í tjöldum og sjáum refinn, fuglinn og upplifum friðsældina. Rifjum upp sögur af venjulegu og óvenjulegu fólki sem bjó á stöðunum og veltum fyrir okkur endalokum byggðarinnar um miðja síðustu öld.
Við ætlum að ganga um svæðið milli Látravíkur og Reykjarfjarðar og fara um Smiðjuvík, Barðsvík, Bolungarvík, Furufjörð og Þaralátursfjörð. Þetta er fjölbreytt leið enda er gengið í fjörum, ofan sjávarbjarga, í hlíðum, í gróðurlendi og mýrlendi og um heiðar og skörð. Hafið er þó yfirleitt alltaf í augsýn. Þessi ferð er með allt á bakinu og gert er ráð fyrir að þátttakendur sameinist um tjöld, prímusa og annað sem kann að létta byrðar. Dagleiðir eru ekki langar og því er hægt að fara á þægilegum hraða og taka kvöldgöngur ef fólk vill reyna meira á sig. Haldinn verður fundur í maí til að fara yfir undirbúning og búnað.

DAGSKRÁ

Sunnudagurinn 29. júní
Gott er að vera mætt síðdegis í Norðurfjörð til þess að hægt sé að skoða sig um og fara í Krossneslaugina dásamlegu. Gist er á eigin vegum og stefnt á að hittast um kvöldið í spjall um ferðina framundan.

Mánudagurinn 30. júní
Vaknað er í bítið enda verður farið snemma af stað með bátnum frá Norðurfirði. Það er hægt að setja aukamat og föt í litla vatnsvarða tösku og því verður komið fyrir í Reykjarfirði. Tilvalið er að sameinast um duffel tösku eða sjópoka. Báturinn leggur að við Látravík skömmu fyrir hádegi og gengið af stað frá Hornbjargsvita um hádegi. Farið er yfir Öxarfjall, um Hrolleifsvík og á Bjarnanes þar sem búið var fram í byrjun 20. aldar. Leiðin liggur svo í Drífandisdalinn og þarf að vaða Drífandisána og við stöldrum við góða stund og skoðum hinn stórkostlega Drífandisfoss sem steypist ofan af bjargbrúninni í sjóinn. Þaðan er gengið niður í Smiðjuvík þar sem við tjöldum á tjaldsvæðinu. Vegalengd þennan dag er ca 10 km og uppsöfnuð hækkun ca 500 m.

Þriðjudagur 1. júlí
Eftir morgunverkin er gengið af stað upp hlíðar Barðsins og yfir í Barðsvík og aftur er farið upp hlíðar Skarðsfjalls og um Göngumannaskörð niður í Bolungarvík. Þar þarf að vaða Bolungarvíkurós og haldið áfram meðfram sjónum um Bolungarvíkurófæruna í Furufjörð og við högum göngu þar eftir sjávarföllum. Í Furufirði verður tjaldað. Þar eru hús enda var búið þar til ársins 1950. Vegalengd þennan dag er um og yfir 14 km og uppsöfnuð hækkun um 600 m.

Miðvikudagur 2. júlí
Eftir morgunverkin höldum við af stað og vöðum Furufjarðarósinn og göngum svo brattann upp í Svartaskarð og þaðan niður í Þaralátursfjörð. Búið var í Þaralátursfirði til ársins 1946. Við vöðum Þaralátursósinn og svo þarf aðeins að fara yfir hálsinn sem skilur að Þaralátursfjörð og Reykjarfjörð og fyrr en varir erum við komin á áfangastað. Þar verður gott að leggjast til sunds í heitri lauginni eftir þriggja daga göngu. Þarna eigum við líka að finna töskurnar frá því fyrsta daginn og þar með nesti fyrir restina af ferðinni. Vegalengd er ca 15 km þennan dag og uppsöfnuð hækkun 570 m.

Fimmtudagur 3. júlí
Við tökum daginn snemma og tökum stefnuna á Geirólfsnúp þennan dag þar sem við toppum á þessum endapunkti Hornstranda í austri. Útsýni er frábært ofan af núpnum þegar skyggni er gott. Vegalengdin þennan dag er áætluð rúmir 15 km og uppsöfnuð hækkun um 600 m.

Föstudagur 4. júlí
Við vöknum snemma og tökum rólegheitagöngu um nágrennið. Svo kemur báturinn upp úr hádeginu eða um miðjan dag. Það má því búast við að hægt verði að keyra suður eftir bátsferðina.

ÚTBÚNAÐUR
Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í maí þar sem betur verður fjallað um ferðaáætlun, ítarlega um útbúnað og nesti, undirbúning og fleira. Hér er þó samantekt um það nauðsynlegasta:
Þriggja árstíða tjald, svefnpoki og létt einangrunardýna. Bakpoki 50-80 L, göngustafir. Næringarríkt nesti og prímus. Góð skel, húfa, vettlingar, tvö einangrandi lög og innanundirfatnaður úr ull. Göngubuxur sem hægt er að renna skálmum af eða með göngupils. Vaðskór sem geta nýst sem tjaldskór á kvöldin.

VERÐ OG BÓKANIR
Verð fyrir manninn er kr. 84.000 m/vsk

Innifalið: Bátsfar fram og til baka, trúss í Reykjarfjörð, gisting tvær nætur í húsi í Reykjarfirði og fararstjórn.
Ekki innifalið: aðstöðugjald við Hornbjargsvita eða matur.

Hámarksfjöldi í ferðina er 20 manns og lágmark er 10 manns.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Auðvelt er að hlaða niður pdf kvittun úr kerfinu. Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og ekki vaxtakostnaður af slíku.
Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 17.500 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „reykjarfj“. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför (28. maí).
Þegar búið er að bóka ferð þá er hægt að sækja um aðgang að lokuðum hóp á Facebook. Þar verða ýmsar praktískar upplýsingar fyrir ferð og fleira.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 17.500 og er innifalið í heildarverði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt84000 en hægt er að framselja fullgreidda ferð til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með (ferðin þarf að hafa verið greidd að fullu áður).
Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför (26. maí). Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.

Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3 dögum fyrir brottför og fram að ferð: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef þarf að fella niður ferð er full endurgreiðsla.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

 

 

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113