Ein ferð sem sameinar fjölbreyttar leiðir á Suðurfjörðum Vestfjarða um miðjan júní

Framundan er ævintýraleg fjögurra daga Vesenisferð vestur á firði. Við munum ganga fjölbreyttar leiðir við Rauðasand, Patreksfjörð, Tálknafjörð og Þorskafjörð en bækistöð okkar verður á Patreksfirði.
Við förum vestur á eigin bílum til þess að þau sem vilja geti tekið ferðavagn með sér. Gisting er á Fosshóteli á Patreksfirði eða á tjaldsvæðinu og við höfum leigt félagsheimilið fyrir sameiginlegan mat og samveru, en það er einmitt staðsett við tjaldsvæðið. Göngurnar eru meðalþungar, en ein undantekning er á því eins og útskýrt er nánar í textanum. Þetta er skemmtilegt svæði og við fáum að sjá fjölbreytt sýnishorn af vestfirskri náttúru.

 

DAGSKRÁ

Fimmtud 15. júní: Vaðalfjöll í Þorskafirði
Við förum í samfloti á eigin bílum og reynum að sameinast í bíla eins og hægt er. Hist er á bílastæði Húsgagnahallarinnar kl. 9 og keyrt af stað. Við keyrum vestur í Þorskafjörð og staldrað við þar á meðan gengið er upp á Vaðalfjöllin sem eru áberandi kennileiti ofan Bjarkarlundar. Við leggjum bílum við Bjarkarlund, en reyndar má taka fram að hægt er að létta sér gönguna og keyra langleiðina uppeftir á jeppaslóða. Annar hnúkurinn er þægilegri en með svolitlu brölti er hægt að toppa þá báða.
Svo verður haldið áfram og stoppað í Vatnsfirði og gengið að Gíslaholu þar sem Gísli Súrsson faldi sig um skeið í útlegðinni forðum.
Við komum okkur svo fyrir á Patreksfirði í viðeigandi gistingu, opnum félagsheimilið og tökum til við undirbúning fyrir kvöldmat. Um kvöldið verður tortilla með kjúklingastrimlum, fjölbreyttu grænmeti, baunum, salsa, sýrðum rjóma, guacamole og rifnum osti.

 

Föstud 16. júní – Lambeyrarháls yfir í Tálknafjörð
Við hefjum daginn með hafragraut og kaffi. Um sama leyti skutlum við bílum yfir á Tálknafjörð.
Svo göngum við gömlu þjóðleiðina yfir Lambeyrarháls til Tálknafjarðar. Vegalengd er um 7 km og uppsöfnuð hækkun um 450 m. Á köflum sjást gamlar hleðslur í götunni og þá eru vörðurnar ennþá mjög sýnilegar. Ef við erum með vant sjósundsfólk í hópnum þá er ekki svo langt að synda frá Lambeyri yfir á Sveinseyri ef sjávarföll eru með í liði.
Stefnt er að því að keyra á Tálknafjörð eftir göngu og þar er hægt að fara í sund, í Pollinn og ef veður er gott þá gæti verið að við skipuleggjum viðbótargöngu á Tungufjall og/eða Geitárhorn ofan við kauptúnið í Tálknafirði.
Sameiginleg sjávarréttasúpa á föstudagskvöldi og kvöldvaka.

 

Laugard 17. júní: Stálfjall og náman
Eftir góðan morgunmat keyrum við yfir á Rauðasand og leggjum bílunum við Melanes. Þaðan göngum við upp Sjöundárdalinn og eftir að hafa staldrað við hjá tóftum Sjöundár þá höldum við áfram og upp á brún við Ölduskarð. Þau sem vilja halda áfram fara um Ölduskarð og gangana (klettasyllurnar) niður í Stálvík að skoða námurnar og stórkostlegt stuðlabergið. Þessi leið er ekki fyrir þau sem eru lofthrædd.
Þau sem sleppa námunum ganga sömu leið aftur niður Sjöundárdalinn og geta notið þess að vera á sandinum þangað til námufólkið snýr aftur. Eftir göngurnar er hægt að fara í sund á Patreksfirði og um kvöldið er sameiginlegt grill við félagsheimilið og kvöldvaka (látið vita ef þið borðið ekki kjöt).

 

Sunnudagur 18. júní – fjallgöngur og heimferð
Eftir góðan morgunmat er komið að frágangi á félagsheimilinu og heimför. Við stefnum á styttri göngu á Geirseyrarmúla við Patreksfjörð kl. 10. Það er í aðeins um 200 m hæð en útsýni fallegt yfir Patreksfjörðinn þaðan. Svo keyrum við í Vatnsfjörð og skoðum Surtarbrandsgilið, sem er magnaður friðlýstur staður. Þaðan keyrum við svo suður.
Ef veður og skyggni er með besta móti þá breytum við um áætlun og sleppum Geirseyrarmúla og Surtarbrandsgili og stefnum á Kaldbak, hið meinta hæsta fjall Vestfjarða (Tröllakirkja við Holtavörðuheiði er örlítið hærri). Það er lengri leiðangur en gaman að nýta tækifærið til að skoða hæsta fjall vestfirsku alpanna.

 

Fararstjórn
Einar Skúlason og Hákon Ásgeirsson verða fararstjórar. Einar stofnaði Vesen og vergang og Wapp-Walking app og hefur á liðnum árum leitt hundruð ferða um allt land. Hákon hafði í nokkur ár umsjón með friðlýstum svæðum á sunnanverðum Vestfjörðum með aðsetur á Patreksfirði og þekkir svæðið mjög vel.

 

Maturinn og gisting
Við verðum á tjaldsvæðinu á Patreksfirði og höfum einnig tryggt okkur hótelherbergi. Gert er ráð fyrir að þau sem vilji vera í ferðavögnum skutlist með þá með sér, svo er hægt að vera í tjöldum eða gista á eigin vegum á svæðinu.
Við leigðum félagsheimilið sem er einmitt staðsett við tjaldsvæðið. Þar verðum við með sameiginlegan morgunmat og kvöldmat. Í boði verður hafragrautur og kaffi á morgnana og á kvöldin eldum við sameiginlegan kvöldmat.
Hótelgisting á Fosshótelinu á Patreksfirði: Í boði eru tveggja manna eins manns herbergi. Herbergin eru hefðbundin uppbúin hótelherbergi og fylgir morgunverðarhlaðborð á hótelinu.
Athugið að gert er ráð fyrir að fólk hjálpist að við að elda, ganga frá og halda félagsheimilinu þokkalegu. Við þurfum að skila því af okkur í svipuðu ástandi og við tókum við því.

 

VERÐ OG BÓKANIR
Verð í ferðina miðast við hvernig tegund af gistingu er valin. Verð eru á mann.

  • Hótelgisting tveggja manna herb kr. 91.500 m/vsk (níu herbergi í boði)
  • Hótelgisting eins manns herb kr. 129.000 m/vsk (tvö herbergi í boði)
  • Án gistingar kr. 42.000 m/vsk (ath gjöld á tjaldsvæði eru ekki innifalin)

 

Innifalið:   fararstjórn/leiðsögn, sameiginlegur kvöldmatur þrjú kvöld og morgunverðarhressing þrjá morgna, aðstaða í félagsheimilinu á morgnana og kvöldin. Fyrir þau sem kaupa hótelgistingu er það innifalið sem eðlilegt er auk morgunverðarhlaðborðs.
Ekki innifalið:  bílferðir eru ekki innifaldar hvorki vestur né á milli staða í ferðinni sjálfri, tjaldsvæðagjöld ekki innifalin eða annað sem er ekki talið upp í inniföldu.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið smellið á tengilinn, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, greiðið og þá er allt klappað og klárt). Álagning er í lágmarki og því er ekki gert ráð fyrir afsláttarkjörum í þessa ferð.

Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur þá er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Staðfestingargjald fyrir tveggja manna herb er kr. 12.000, fyrir eins manns herbergi er kr. 19.000 og fyrir ferð án gistingar er kr. 7000. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „Patro“. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför.
Lágmarksfjöldi í ferðina er 15 manns en hámarksfjöldi er 40.

 

Skilmálar
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð fer eftir gistingu og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.
Vesenisferðir/Vesen og vergangur skipuleggja þessa ferð.

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113