Herðubreið, Askja og Kverkfjöll í ágúst

Framundan er þriggja daga Vesenisferð um stórkostlegt svæði norðan Vatnajökuls. Fyrsta daginn verður farið á Herðubreið, drottningu íslenskra fjalla og einn stærsta móbergsstapa á Íslandi. Við gistum svo í Dreka við Öskju og verjum öðrum deginum við göngu á Öskjusvæðinu, en færum okkur svo síðdegis í Sigurðarskála við Kverkfjöll og gistum þar. Eldsnemma morguninn eftir er farið af stað í gönguna á Kverkfjöll. Þátttakendur koma á eigin vegum að Möðrudal á Fjöllum, safnast saman og ekið er þaðan í samfloti á eigin jeppum. Það er hægt að bóka einungis fyrri tvo dagana í ferðina og sleppa Kverkfjöllum.
Athugið að ferðin er með þeim fyrirvara að óróa verði lokið í Öskju. Ef einhvers konar viðvaranir verða í gangi fyrir svæðið á þessum tíma, þá verður ferðin að sjálfsögðu felld niður og endurgreidd að fullu.

Á leið upp á Herðubreið.

DAGSKRÁ

 

11. ágúst föstudagur
Komið er saman snemma morguns við Möðrudal á Fjöllum, sameinast í jeppana og keyrt af stað kl.8 sem leið liggur að rótum Herðubreiðar. Þaðan er gengið upp á Herðubreið í skriðum og um klettabelti. Á þessari leið er nauðsynlegt að vera með hjálm og við munum ganga nokkuð þétt saman. Gera má ráð fyrir að gangan taki allt að 6 klst og hækkun er ca 1000 m. Að lokinni göngu keyrum við að skálanum Dreka í Dyngjufjöllum og gistum þar. Hægt er að fara í kvöldgöngu í Drekagil.
Athugið að 11. og 12. ágúst gætu víxlast ef skyggni og aðstæður eru betri seinni daginn fyrir göngu á Herðubreið.

12. ágúst laugardagur
Þennan dag keyrum við fyrst nokkra bíla að bílastæðinu við Öskju og svo göngum við fallega leið frá Dreka yfir Dyngjufjöll og að Öskju og eftir að hafa skoðað Víti þá er gengið að bílastæðunum. Ef veður er ekki gott þá látum við duga að keyra á bílastæðin við Öskju og ganga á fallegan útsýnisstað þar sem sést vel yfir Öskjuvatnið og berghlaupið sem varð árið 2014. Skoðum Víti í leiðinni. Keyrum svo að Sigurðarskála í Kverkfjöllum og gistum um nóttina. Farið verður snemma í háttinn.
Þau sem sleppa Kverkfjöllum kveðja væntanlega hópinn eftir gönguna við Öskju.

13. ágúst sunnudagur
Tökum daginn mjög snemma og förum af stað um kl. 6 um morguninn. Förum upp Löngufönn og á hæsta tind Kverkfjalla vestari og áfram að skála Jörfa við Gengissig. Hugsanlega komumst við líka í Hveradal ef aðstæður eru góðar. Útsýnið er stórkostlegt. Við komum niður fyrir kvöldmatarleyti og þau sem vilja vera lengur geta athugað með skálapláss eða hægt að keyra til byggða. Leiðin öll er um 18-20 km og hækkun um 1200 m. Gengið er í línu eftir að komið er í 1600 m hæð. Því þurfa allir að vera með göngubelti, lokaða karabínu, fjallabrodda og ísöxi.

Uppi á Herðubreið

LÍKAMLEGT FORM OG BÚNAÐUR

Það þarf að æfa fyrir svona ferð og best að stunda æfingar fyrir fjallaferðir með því að fara á fjöll. Kerhólakambur í Esju er góður sem undirbúningur fyrir göngu á Herðubreið og einnig Þverfellshorn og fleiri leiðir á Esju. Það á að tryggja þokkalegt form með því að fara tvisvar í viku fjall með 6-800 m hækkun síðustu fjórar til fimm vikur fyrir ferð. Gætið þess að hvíla amk tvo daga fyrir fyrsta göngudag í ferðinni.
Varðandi búnað þá þarf fjallabrodda (mannbrodda/jöklabrodda), ísöxi, hjálm, lokaða karabínu og göngubelti. Ef Kverkfjöllum er sleppt þá dregur úr öryggisbúnaði, fjallað er nánar um það á undirbúningsfundi í lok maí eða byrjun júní og birtur búnaðarlisti.
Fararstjórn er í höndum Jóns Trausta Bjarnasonar, Bjarka Vals Bjarnasonar og Einars Skúlasonar.

 

VERÐ OG BÓKANIR

Verð með Herðubreið, Öskju og Kverkfjöllum í skálagistingu kr. 48.300 m/vsk
Verð með Herðubreið, Öskju og Kverkfjöllum í tjaldi kr. 34.500 m/vsk

Innifalið: gisting í skálunum Dreka og Sigurðarskála við Kverkfjöll eða tjaldað í grennd við skála, fararstjórn.
_
Verð með Herðubreið og Öskju (án Kverkfjalla) í skálagistingu kr. 31.100 m/vsk
Verð með Herðubreið og Öskju (án Kverkfjalla) í tjaldi kr. 24.500 m/vsk

Innifalið: gisting í skálanum Dreka eða tjaldað í grennd við skálann, fararstjórn.
Ekki innifalið: akstur eða annað til að koma fólki á milli staða – ef ekki er komið á eigin bíl þá þarf að greiða viðkomandi bílstjóra sanngjarnan hlut í kostnaði

 

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í Sportabler.

Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur þá er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 6.500 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „Kverkskali“ eða „Kverktjald“ – ef þið ætlið ekki með í Kverkfjöll þá merkið þið: „Herdubrskali“ eða „Herdubrtjald“ (eftir því hvort þið viljið vera í skála eða tjaldi). Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 6.500 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.
Ferðin er á vegum Vesenisferða/Vesens og vergangs gönguklúbbs.

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113