Hornstrandir með gistingu í Hornbjargsvita 2025

Þetta er fjögurra daga ferðalag þar sem við förum um stórkostlegt landslag við ystu strandir, jarðtengjum okkur, skoðum og hlustum á náttúruna og fáum ferskt sjávarloft í vitin allan daginn. Við fylgjumst með rebba og ótrúlegu fuglalífi, sjáum öldurnar skella á klettaströndum og setjum okkur í spor þeirra sem bjuggu á þessum slóðum með því að rifja upp sögur af þeim um leið og við göngum. Við göngum dagleið fyrsta daginn í Hornbjargsvita og höldum á nesti til fjögurra daga, svefnpoka og þess háttar en kvöldmatur og morgunmatur er sameiginlegur og bíður okkar í vitanum. Haldinn verður undirbúningsfundur í apríl/maí þar sem farið verður vel yfir dagskrá, undirbúning, búnað og fleira.

DAGSKRÁ

Mánudagur 7. júlí             Bolungarvík – Lónafjörður – Hornbjargsviti

Siglt að morgni frá Bolungarvík í Miðkjós í Lónafirði. Þaðan sem gengin verður yfir Snókaheiði að Hornbjargsvita í Látravík. Munum halda á svefnpoka, fatnaði og nesti til fjögurra daga fyrsta daginn og hafa bækistöð í vitanum í þrjár nætur en léttum pokann fyrir dagsgöngur tveggja daga. Athugið að í boði verður sameiginlegur kvöldmatur og morgunmatur sem verður í skálanum. Þátttakendur í ferðinni skipta með sér verkum í eldamennsku og frágangi.

Vegalengd þennan fyrsta dag er ca 13 km og ca 700m hækkun.

 

Þriðjudagur 8. júlí             Hornbjargsviti – Hornbjarg – Hornvík

Gengið á Hornbjarg og ef vel viðrar er stefnt að því að ganga með endilangri bjargbrúninni. Ef aðstæður eru góðar er boðið upp á aukagöngu á Kálfatind en þaðan er stórfenglegt útsýni í björtu veðri. Það er einnig magnað útsýni af Miðfelli sem er hluti af hringnum okkar. Eftir Hornbjarg er er gengið framhjá Hornbæjunum og til baka í Hornbjargsvita um Almenningaskarð. Þessi dagleið er um 20 km löng og heildar hækkun ríflega 1000m.

Við víxlum degi 2 og 3 ef það er hagstætt út frá veðurspá.

 

Miðvikudagur 9. júlí        Hornbjargsviti og nágrenni

Hér er margt að sjá og við eigum eftir að útfæra hvert verður farið miðað við veður. Í nágrenni vitans eru t.d. magnaðar bergmyndanir, eins og Blakkibás, Trogið og Fjalirnar, sem eru 60m háir berggangar sem rísa tígulega upp úr fjörunni. Mögulega tökum við góða göngu yfir í Hornvík og skoðum hana vel og hinn möguleikinn er að ganga um Axarfjall yfir í Hrolleifsvík og út á Bjarnarnes og um leið má ganga að fossinum Drífanda, sem fellur í sjó fram af 50m hárri bjargbrún. Það er því ekki ljóst með vegalengd og hækkun þennan dag.

 

Fimmtudagur 10. júlí       Hornbjargsviti – Veiðileysufjörður

Við göngum frá Hornbjargsvita um Kýrskarð og niður í Hornvík og vöðum Hafnarósinn, sem er sendinn og þægilegur undir fót. Þaðan förum við upp í Hafnarskarð og áfram niður í botn Veiðileysufjarðar þar sem báturinn sækir okkur og skilar til baka á hafnarbakkann í Bolungarvík. Vegalengd þennan dag er 16 km og um 700m hækkun.


LÍKAMLEGT FORM

Hver og einn þarf að koma með svefnpoka og nesti fyrir alla dagana og fyrstu dagleiðina þarf að bera þetta á bakinu í skálann. Trúss er ekki í boði. Þetta er því nokkuð krefjandi ferð og mikilvægt að þátttakendur æfi vel vikurnar á undan. Varðandi æfingar er gott að taka tvær ferðir á viku upp að Steini síðustu sex vikur fyrir göngu eða sambærilegt. Notið bakpokann sem þið farið með á Hornstrandir og hafið a.m.k. 5 kg pokanum (flöskur með vatni til að þyngja pokann og þá er hægtað hella vatninu ef eitthvað kemur upp á).

Umsjón

Einar Skúlason annast leiðsögn í þessari ferð. Hann stofnaði Vesen og vergang árið 2011 og Wapp – Walking app árið 2015 og hefur leitt fjölmargar Hornstrandagöngur og gönguferðir um allt land.

VERÐ OG BÓKANIR

Verð 116.000 m/vsk

Innifalið: sigling, gisting í skála, kvöldmatur þrjú kvöld og hafragrautur og kaffi á morgnana og fararstjórn/leiðsögn.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í bókunarkerfinu. Ef þið lendið í vandræðum í skráningarferlinu þá eru leiðbeiningar hér.

Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 18.000 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „hornbjarg“. Muna að fullgreiða í síðasta lagi sex vikum fyrir brottför (26. maí).

Þegar búið er að bóka ferð þá er hægt að sækja um aðgang að lokuðum hóp á Facebook. Þar verða ýmsar praktískar upplýsingar fyrir ferð og fleira.

Í fyrri ferðum hefur verið hægt að lækka verð fyrir aðildarfélaga Ferðafélags Íslands. Það er því miður ekki lengur leyft og því eru allir á sama verði.

SKILMÁLAR

Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 18.000 og er innifalið í heildarverði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja fullgreidda ferð til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með (ferðin þarf að hafa verið greidd að fullu áður).

Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför (26. maí). Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.

Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:

Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.

Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.

Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.

Afbókun 3 dögum fyrir brottför og fram að ferð: Engin endurgreiðsla.

Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef þarf að fella niður ferð er full endurgreiðsla.

Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

Share this post

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113