Leggjabrjótur 2025

Leggjabrjótur er gömul og fjölfarin þjóðleið á milli Þingvalla og Hvalfjarðar og við ætlum að fara þessa ferð laugardaginn 28. júní (sunnudagur er til vara vegna veðurs).
Leiðin er vörðuð og vel greiðfær þrátt fyrir nafnið, en um miðbik hennar er nokkur hundruð metra kafli sem er grýttur og er það hinn eiginlegi Leggjabrjótur. Ekki eru mörg dæmi um óhöpp hjá fólki á þessum grýtta kafla en nafnið kemur af því að hestar áttu það til að fótbrotna á þessum kafla ef ekki var farið varlega. Í góðu skyggni er fallegt útsýni yfir Þingvallasvæðið og sömuleiðis er frábært útsýni yfir Hvalfjörðinn. Þetta eru söguslóðir og sagt verður frá ýmsu markverðu og örnefnunum á leiðinni.

Vegalengd : um 17 km
Hækkun: 450 m (hæsti punktur á leið er 500 m)
Göngutími: ca 6 tímar

Brynjudalur og Hvalfjörður

FYRIRKOMULAGIÐ
Við tökum rútu við prentsmiðju Morgunblaðsins í Hádegismóum kl. 8:30. Rútan skutlar okkur að upphafsstað og sækir okkur á áfangastað. Hægt er að geyma aukadót eins og t.d. skó, sokka eða önnur föt eða aukanesti í rútunni á meðan við göngum og því hægt að komast í það aftur þegar við komum að rútunni í lokin. Við komum aftur í bæinn síðdegis.

UNDIRBÚNINGUR OG ÚTBÚNAÐUR
Gert er ráð fyrir að þátttakendur séu í æfingu til að takast á við svona göngu. Gott er að fara tvær ferðir upp að Steini síðustu tíu dagana fyrir ferð en hvíla einn til tvo daga fyrir sjálfa ferðina.
Verið klædd eftir veðri og takið með næringarríkt nesti. Það verður hægt að fylla á vatnsflöskur á leiðinni. Á fimmtudegi fyrir göngu verður sendur tölvupóstur á þátttakendur með upplýsingum um veðurhorfur og ráðleggingum varðandi búnað.

Öxará og Þingvallavatn

VERÐ OG BÓKANIR

Verð í ferðina er kr. 14.000 m/vsk

Innifalin er rútuferðin fram og til baka og leiðsögn.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið skráið ykkur inn og greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Athugið að það er ekki í boði að bóka ferð með því að greiða einungis staðfestingargjald. Það er hins vegar hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í sportabler.
Ef þið lendið í vandræðum með sportabler þá er hægt að senda póst á einarskula@gmail.com til að fá bankaupplýsingar vegna millifærslu.

Fossarnir í Hvalskarðsá og Botnssúlur

 

SKILMÁLAR

Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 4.000 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja fullgreidda ferð til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.

Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef ferð er felld niður kemur full endurgreiðsla.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

Grýtti kaflinn sem gaf leiðinni nafn sitt.

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113