Við ætlum í fjögurra daga trússaða ferð og kanna stórkostleg svæði við Borgarfjörð eystri þar sem ljós ríólít fjöllin eru áberandi innan um hefðbundin basaltfjallgarða. Við skoðum eitt stærsta sýnilega framhlaup jarðsögu Íslands, fræðumst um búsetu fyrrum á stöðum sem fóru í eyði á síðustu öld, skoðum staði sem tilheyra þjóðsögum um dverga, álfa, huldufólk og útburði og öndum að okkur sjávarlofti við strendur og fjallalofti efst í skörðunum. Trússað verður með viðlegubúnað og mat og gengið er með dagpoka. Val er um að gista í skála eða tjaldi. Leiðsögn annast Einar Skúlason.
Bræðsluhelgin er í kjölfarið og tilvalið að njóta viðburðanna og tónleikanna eftir góða göngu.
DAGSKRÁ
Sunnudagur 20. júlí
Gott er að koma til Borgarfjarðar í síðasta lagi á mánudagskvöldinu. Hægt er að panta sér gistingu eða vera á tjaldsvæðinu. Gaman er að rölta um þorpið eða skutlast yfir að Hafnarhólma og skoða lunda og aðra fugla.
Mánudagur 21. júlí Borgarfjörður – Breiðavík
Hittumst á bílastæði tjaldsvæðisins Borgarfirði kl. 8:30, setjum trúss í trússkerruna og skutlum bílum á bílastæðið þar sem gangan endar á föstudeginum. Sameinumst svo í bíla og keyrum að bílastæðinu við Hafnarhólma og göngum af stað þaðan upp í Brúnavíkurskarðið og þaðan niður í Brúnavík. Þar skoðum við tóftir og fallega fjöruna. Við göngum svo upp úr Brúnavík, um efstu drög Hvalvíkur og Kjólsvíkur og í Breiðavík þar sem við gistum í skálanum og á tjaldsvæðinu. Vegalengd ca 14 km og uppsöfnuð hækkun ca 800 m. Göngutími ca 6-7 tímar.
Þriðjudagur 22. júlí Breiðavík – Húsavík
Hafragrautur verður í boði, kaffi og svo trússið í kerru um morguninn. Við höldum upp Víknaheiði þar sem landslag einkennist af ljósgrýtisskriðum og frísklegum lággróðri. Þaðan göngum við upp með Hvítserki og niður Vetrarbrekkur í Húsavík. Það er mögulegt að taka göngutúr um kvöldið niður í Húsavíkina og skoða kirkjuna og fjöruna. Vegalengd er ca 14,5 km og hækkun samtals um 500 m. Gangan tekur um 6-7 tíma.
Miðvikudagur 23. júlí Húsavík – Loðmundarfjörður
Gengið er upp Nesháls og niður í gróðursælan Loðmundarfjörð þar sem fjallið Gunnhildur blasir við handan fjarðarins auk margra annarra svipmikilla fjalla og tinda. Gistum svo í skálanum að Klypsstað.
Vegalengd ca 14 km og um 400 m uppsöfnuð hækkun. Göngutími er ca 6 tímar.
Fimmtudagur 24. júlí Loðmundarfjörður – Borgarfjörður
Göngum framhjá Stakkahlíð og upp skriðurnar í einu stærsta framhlaupi landsins eftir að síðustu ísöld lauk. Leiðin liggur um Kækjuskörð og svo niður Kækjudal þar sem við stöldrum við hjá Kirkjusteini og Stórasteini og förum yfir þjóðlegan fróðleik þeim tengdum. Svo komum við niður að bílastæðinu þar sem bílarnir okkar bíða.
Leiðin er ca 15 km og um 700 m uppsöfnuð hækkun. Göngutími er ca 6-7 tímar með stoppum.
NESTI OG ÚTBÚNAÐUR
Haldinn verður undirbúningsfundur í maí þar sem farið verður nánar í ferðaáætlunina, útbúnað, mat, undirbúning og fleira. Athugið að ofgera ekki vistum í trúss og muna að það er boðið upp á hafragraut á morgnana og við stefnum á sameiginlegan mat á kvöldin. Hægt er að fara í sturtu í öllum þremur skálunum en það þarf að greiða sérstaklega fyrir það.
ÆFINGAR
Mikilvægt er að æfa sig vel fyrir svona ferð þar sem gengið er á hverjum degi nokkra daga í röð. Æfingar geta falið það í sér til dæmis að taka vikulegar göngur með dagpoka á bakinu upp að Steini í Esju og tvær ferðir á Úlfarsfell – ef þið gerið sex svona sett þá munið þið njóta þess að fara í svona ferð. Besti undirbúningurinn fyrir gönguferð er að æfa sambærilegar göngur.
VERÐ OG BÓKANIR
Verð í þessa ferð er kr. 81.700
Verð ef gist er í tjaldi er kr. 59.500 (innifalið tjaldsvæði og aðstöðugjald í skála).
Öll verð eru með vsk.
Innifalið: Trúss, hafragrautur og kaffi þrjá morgna, gisting í skála eða tjaldstæði í þrjár nætur og fararstjórn/leiðsögn.
Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Athugið að það er ekki í boði að bóka ferð með því að greiða einungis staðfestingargjald. Það er hins vegar hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í sportabler.
Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 9.700 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja viknaslodir. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför (28. maí).
Þegar búið er að bóka ferð þá er hægt að sækja um aðgang að lokuðum hóp á Facebook. Þar verða ýmsar praktískar upplýsingar fyrir ferð og fleira.
Skilmálar
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 9.700 og er innifalið í heildarverði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja fullgreidda ferð til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.