Hin stórkostlegu Lónsöræfi 2024 – uppbókað

23/1’24: því miður er uppbókað í þessa ferð.

Dagana 14.-17. júlí munum við fara um hin stórkostlegu Lónsöræfi í fjögurra daga gönguferð þar sem skriðjöklar, djúp gil og þröngir dalir blandast saman við litadýrð og fjölbreyttar klettamyndanir. Við komum saman við Stafafell í Lóni og skiljum bílana eftir þar. Tökum rútu sem keyrir okkur eftir þjóðveginum norður á Hérað og upp á Fljótsdalsheiði. Svo göngum við í fjóra daga með nesti og aukafatnað á bakinu, en morgunmatur og kvöldmatur verður sameiginlegur í skálunum. Gengið verður frá Sauðárvatni um efstu drög Víðidals og að Kollumúlavatni þar sem við gistum í tvær nætur og göngum um Víðidal og Tröllakróka. Þaðan göngum við niður í Múlaskála og tökum göngu um hin litríku Víðibrekkusker. Eftir gistingu í Múlaskála er gengið með Jökulsá niður í Lón.

DAGSKRÁ

Laugardagurinn 13. júlí
Athugið að vera komin austur í Lón laugardagskvöldið 13. júlí. Búið er að bóka gistingu á Stafafelli fyrir þau sem vilja í hópnum og hægt að vera í uppbúnu eða í svefnpokaplássi (ekki innifalið). Stefnum á að skutla bílum í Smiðjunes um kvöldið.

Sunnudagurinn 14. júlí
Komum saman snemma við Stafafell í Lóni, skiljum bíla eftir þar (verðum búin að skutla einum eða tveimur bílum upp í Smiðjunes) og tökum rútu kl. 8 um rúmlega þriggja tíma leið á Hérað og upp á Fljótsdalsheiði. Hefjum gönguferðina skammt vestan við Sauðárvatn og göngum gamla varðaða leið niður í Víðidalsdrög og vöðum Víðidalsána á Norðlingavaði og göngum að Kollumúlavatni þar sem skálinn Egilssel er og gistum þar næstu tvær nætur. Við eldum okkur sameiginlegan kvöldmat og tökum kvöldvöku.
Vegalengd göngu 17,5 km og 500 m heildarhækkun.

Mánudagurinn 15. júlí
Eftir frískandi hafragraut þá tökum við göngu niður í Víðidal, skoðum Náttmálafoss og nýtum okkur nýju göngubrúna til að komast yfir Víðidalsána og skoða tóftir Grundar þar sem búið var um skeið. Við snúum svo aftur í skálann og fáum okkur hressingu. Svo er komið að því að ganga að Tröllakrókum og við göngum fyrst upp á Tröllakrókahnaus og svo meðfram Tröllakrókum og njótum þess stórkostlega útsýnis sem þarna má sjá. Að sjálfsögðu tökum við bara nesti og viðlegubúnað fyrir daginn í þessum göngum svo að bakpokarnir verða léttir. Svo snúum við aftur í Egilssel og eldum kvöldmat og njótum samveru á kvöldvökunni.
Gangan í Víðidal er um 5 km og 350 m heildarhækkun.
Gangan í Tröllakróka er um 9 km og ca 450 m heildarhækkun.

Þriðjudagurinn 16. júlí
Eftir hafragraut og kaffi og frágang skálans þá göngum við niður að Múlaskála á bökkum Jökulsár. Þar léttum við bakpokana og öxlum þá aftur með nesti í dagsgöngu upp að Víðibrekkuskerjum.
Gistum í skálanum um nóttina og er hægt er að fara í sturtu í Múlaskála (kostar kr. 500 og þarf ekki að borga í klinki). Sameiginlegur matur um kvöldið og kvöldvaka.
Vegalengd niður að Múlaskála er 7,5 km og 200 m heildarhækkun (mun meiri lækkun).
Víðibrekkuskerjahringur er ca 9 km og 700 m heildarhækkun.

Miðvikudagurinn 17. júlí
Gengið frá Múlaskáli yfir göngubrúna á Jökulsá og þaðan upp á Illakamb og sem leið liggur í Gvendarnes/Smiðjunes. Þetta er talsvert löng dagleið og auk þess mikið upp og niður en áfram fylgir litadýrðin okkur og gróðurflesjur. Í Smiðjunesi verða einn eða tveir bílar frá okkur sem við notum til að ferja bílstjóra og sækja bílana við Stafafell.

Vegalengd ca 21 km og ca 900 m heildarhækkun.

 

UNDIRBÚNINGUR
Það er nauðsynlegt að undirbúa sig vel líkamlega fyrir gönguna með æfingum með bakpoka. Taka þarf göngur með góðri hækkun og hafa nokkur kíló í bakpokanum (vatnsflöskur). Nánar verður farið yfir undirbúning á fundinum.

 

VERÐ OG BÓKANIR
Í skála kostar ferðin kr. 79.000 á mann m/vsk (innifalið staðfestingargjald)

Innifalið: rúta, skálagisting í þrjár nætur með svefnpokaleigu (takið með lakpoka), hafragrautur og kaffi á morgnana og kvöldmatur öll kvöldin (maturinn verður að miklu leyti kominn í skálana), skipulagning og leiðsögn.
Þess má geta að allir þurfa að hjálpast að við eldamennsku, frágang, vatnsburð, kyndingu og fleira í tengslum við skálagistingu. Fólk sér sjálft um nesti. Það er ekki hægt að vera með trúss á þessari leið. Athugið að fyrir þau sem eru í tjaldi þá er tjaldsvæði og aðstöðugjald í skála innifalið.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Athugið að það er ekki í boði að bóka ferð með því að greiða einungis staðfestingargjald. Það er hins vegar hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í sportabler.
Millifærsla: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 13.900 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja lonsoraefi. Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför.

Þegar búið er að bóka ferð er hægt að sækja um aðild að lokaða hópnum á Facebook. Þar verða margvíslegar upplýsingar fyrir ferð.

Hámarksfjöldi í ferðina er 19 manns. Lágmarksfjöldi 12 manns.
Haldinn verður undirbúningsfundur í maí eða byrjun júní þar sem fjallað verður um útbúnað og fyrirkomulag. Leiðsögn er í höndum Einars Skúlasonar.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 13.900 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Þá er ferðin endurgreidd að fullu.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113