Hornstrandahringur með Fljótavík og Hlöðuvík í byrjun júlí

Við förum í ævintýraferð um friðlandið á Hornströndum 29. júní til 3. júlí með allt á bakinu. Gistum í tjöldum og sjáum refinn, fuglinn og upplifum friðsældina. Rifjum upp sögur af venjulegu og óvenjulegu fólki sem bjó á stöðunum og veltum fyrir okkur endalokum byggðarinnar um miðja síðustu öld. Ferðin er krefjandi enda er gengið með allt á bakinu í fjóra daga í röð og ávallt þó nokkur hækkun. Við byrjum og endum á Hesteyri, en skoðum Látra í Aðalvík, Fljótavík, Kjaransvík og Hlöðuvík og endum svo á Hesteyri.

Fljótavík

 

DAGSKRÁ

30. júní: Hesteyri og gengið um Hesteyrarskarð að Látrum (Aðalvík)
Siglt snemma morguns úr höfninni Bolungarvík áleiðis til Hesteyrar í Hesteyrarfirði. Leiðin liggur svo upp í Hesteyrarskarð en þar tekur við vörðuð leið fram á efstu drög Stakkadals. Stakkadalsós þarf að vaða rétt neðan Stakkadalsvatns. Þaðan er skammur gangur að Látrum, þar sem við tjöldum.
Vegalengd ca 11 km og 300 m hækkun.
Við stefnum á að taka kvöldgöngu inn í Miðvík sem bætir nokkrum kílómetrum við vegalengd dagsins.

 

1. júlí: Látrar í Aðalvík – Fljótavík
Þau sprækustu leggja eldsnemma af stað, geyma þyngstu byrðarnar við rætur Straumnesfjallsins og taka göngu að herstöðinni gömlu efst á Straumnesfjalli (vegalengd göngu ca 10 km samtals). Það er auðvitað líka möguleiki að ganga upp kvöldið áður.
Annars er áætlun dagsins þannig að farin er leiðin um Tunguheiði fram á brúnir Tungudals þar sem við sjáum yfir Fljótavíkina. Þaðan göngum við niður hlíðarnar að Fljótavatni og vöðum yfir og tjöldum utarlega skammt frá ströndinni.
Vegalengd án Straumnesfjalls er ca 13 km og 500 m hækkun.

 

2. júlí: Fljótavík – Hlöðuvík
Gengið er í hlíðum með Fljótavatni. Þarna er mikið mýrlendi og því verður blautt um ca tveggja tíma kafla. Svo er gengið um bratta og grýtta hlíð upp í Þorleifsskarð, þarna förum við rólega enda erfiðasti kaflinn og höldum svo áfram um Almenninga og Almenningaskarð og undirlagið verður þægilegra eftir því sem við förum lengra. Svo er komið niður í Kjaransvík og farið um fjöruna fyrir Álfsfell og í Hlöðuvík. Við tjöldum í Hlöðuvík.
Vegalengd ca 15 km og 650 m hækkun.

 

3. júlí: Hlöðuvík – Hesteyri
Farið er yfir í Kjaransvík og upp varðaða leið um Kjaransvíkurskarð og meðfram Hesteyrarbrúnum niður að Hesteyri. Þar fáum við okkur hressingu í Læknishúsinu og litumst um á Hesteyri og siglum svo yfir til Bolungarvíkur síðdegis.
Vegalengd ca 15 km og 430 m hækkun.

LÍKAMLEGT FORM
Þetta er krefjandi ferð og mikilvægt að þátttakendur æfi vel vikurnar á undan. Varðandi æfingar er gott að taka tvær ferðir á viku upp að Steini síðustu fimm vikur fyrir göngu eða sambærilegt. Notið bakpokann sem þið farið með á Hornstrandir og hafið ávallt 5-10 kg pokanum (gott að nota 2 ltr plastflöskur með vatni til að geta hellt vatninu ef eitthvað kemur upp á).

 

UMSJÓN
Einar Skúlason annast leiðsögn í þessari ferð. Hann stofnaði Vesen og vergang árið 2011 og Wapp – Walking app árið 2015 og hefur leitt hundruð gönguferða um Hornstrandir og víðar á landinu.
Haldinn verður undirbúningsfundur í seinni hluta maí og hann verður tilkynntur á viðburðinum á Facebook.

VERÐ OG BÓKANIR

Verð 58.600 m/vsk

Innifalið: sigling og fararstjórn.

Ekki innifalið: veitingar í Læknishúsinu á Hesteyri.

Hámark 22 manns og lágmark 12 manns í þessa ferð.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í Sportabler.

Að millifæra: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur þá er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 11.600 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „Hornstr“. Muna að fullgreiða með millifærslu minnst sex vikum fyrir brottför.

 

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 11.600 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113