Jökulfirðir og Hornstrandainnlit 2024 – uppbókað

26/1’26 – því miður er uppbókað í ferðina.

Framundan er fjögurra daga ferðalag með allt á bakinu um hluta Jökulfjarða auk hluta Hornstranda. Við förum um Lónafjörð, Hrafnsfjörð og Leirufjörð (Jökulfjarðamegin) og Bolungarvík og Furufjörð (Hornstrandamegin). Við spáum í það hver bjó fyrrum á stöðunum sem leiðin liggur um og hvernig lífi þau lifðu og almennt hvernig náttúrufar er á þessum slóðum. Þetta er ferð með allt á bakinu og við tjöldum þrjár nætur og tengjum okkur vel við náttúruna frá ströndum upp til fjalla.

DAGSKRÁ

Þriðjudagur 23. júlí          Bolungarvík – Lónafjörður – Hrafnsfjörður

Siglt er að morgni frá Bolungarvík í Lónafjörð þar sem við förum í land í Miðkjós. Þaðan göngum við meðfram ströndinni og vöðum svo fyrir Einbúa og Lónin inn í Sópanda. Svo göngum við gamla leið milli fjarðanni upp og meðfram Mánafelli og á Fannalág og komum niður hjá Álfsstöðum í Hrafnsfirði. Þaðan göngum við meðfram ströndinni að tjaldsvæðinu í Hrafnsfjarðarbotni.

Vegalengd þennan dag er ca 14 km og um 500 m heildarhækkun.

 

Miðvikudagur 24. júlí      Hrafnsfjörður – Bolungarvík – Furufjörður

Við pökkum saman tjöldum og búnaði og göngum inn botninn á firðinum og upp Álfsstaðadal á Bolungarvíkurheiði sem nær hæst um rétt rúmlega 400 m hæð. Þaðan göngum við niður í Bolungarvík og svo um Bolungarvíkurófæruna þegar fer að fjara út síðdegis og yfir í Furufjörð þar sem við tjöldum.

Vegalengd er ca 18 km og uppsöfnuð hækkun rúmir 500 m.

 

Fimmtudagur 25. júlí       Furufjörður – Hrafnsfjörður

Við pökkum saman og göngum Skorarheiðina aftur til Hrafnsfjarðar. Þetta er léttasta ganga ferðarinnar enda er Skorarheiðin talin léttasti fjallvegur Hornstranda. Það er líklega ágætt að taka því rólega eftir tvo strembna daga og hægt að stúdera umhverfið vel í botni Hrafnsfjarðar og jafnvel taka aukagöngu.

Vegalengd er ca 9 km og tæplega 300 m heildarhækkun.

 

Föstudagur 26. júlí           Hrafnsfjarðarbotn – Flæðareyri

Við göngum frá tjöldum og pökkum, öxlum svo bakpokana og göngum af stað út Hrafnsfjörðinn og stöldrum við góða stund við leiði Fjalla-Eyvindar. Við höldum áfram út að Kjós og þaðan er stutt í vaðið yfir Leirufjörð þar sem jökullinn blasir við og gætir þess að fjörðurinn beri keim af nafni sínu. Þaðan göngum við framhjá bænum Dynjanda og þá fer að styttast í félagsheimilið að Flæðareyri. Við verðum sótt þangað og siglum aftur yfir í Bolungarvík þar sem er tilvalið að skella sér í sundlaugina.

Vegalengd er 16,5 km og uppsöfnuð hækkun ca 250 m.

 

LÍKAMLEGT FORM

Þetta er krefjandi ferð og mikilvægt að þátttakendur æfi vel vikurnar á undan. Varðandi æfingar er gott að taka tvær ferðir á viku upp að Steini síðustu fimm vikur fyrir göngu eða sambærilegt. Notið bakpokann sem þið farið með á Hornstrandir og hafið ávallt 5-10 kg pokanum (gott að nota 2 ltr plastflöskur með vatni til að geta hellt vatninu ef eitthvað kemur upp á).

 

UMSJÓN

Einar Skúlason annast leiðsögn í þessari ferð. Hann stofnaði Vesen og vergang árið 2011 og Wapp – Walking app árið 2015 og hefur leitt hundruð gönguferða um Hornstrandir og víðar á landinu. Elísabet Snædís verður til aðstoðar í ferðinni.

Haldinn verður undirbúningsfundur í seinni hluta maí og hann verður tilkynntur í lokaða hópnum á Facebook.

 

VERÐ OG BÓKANIR

 

Verð 64.700 m/vsk

 

Innifalið: sigling og fararstjórn.

Hámark 22 manns og lágmark 12 manns í þessa ferð.

 

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í Sportabler.

 

Að millifæra: Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur þá er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 12.700 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „Jfirdir“. Muna að fullgreiða með millifærslu minnst sex vikum fyrir brottför (8. júní).

Þegar búið er að bóka er hægt að sækja um aðgang að lokaða hópnum á Facebook fyrir þátttakendur: https://www.facebook.com/groups/2338550843021971

SKILMÁLAR

Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 12.700 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.

Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:

Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.

Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.

Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.

Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.

Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Þá kemur full endurgreiðsla.

Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

 

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113