Strandaferð á síðsumri 2024

Það er uppbókað í gistingu en hægt að gista á eigin vegum eða vera á tjaldsvæðinu. 

Um mánaðarmótin ágúst-september ætlum við að skoða hluta Stranda og raunar er þetta önnur tilraun til að fara þessa ferð enda þurfti að fella hana niður vegna veðurs í fyrra. Þetta er helgarferð og við tökum létta göngu á föstudagskvöldinu til að koma okkur í gang og svo þægilegar dagsgöngur um gamlar þjóðleiðir á laugardegi og sunnudegi. Við verðum með bækistöð við Steingrímsfjörð og skoðum einnig Bjarnarfjörð, Kollafjörð og Bitrufjörð. Í ferðinni ætlum við því að skoða landslagið vel og hinar ýmsu hliðar á náttúrunni (og bragða á berjum) en líka bregða okkur í laugar, borða góðan mat, pæla í sögum og menningu Strandamanna og eiga góðar stundir saman.
Farið verður á eigin bílum en við munum skipuleggja okkur og sameinast í bíla eftir föngum. Gist verður að Kirkjubóli og Víðidalsá við Steingrímsfjörð. Í boði eru sjö tveggja manna herbergi og eitt þriggja manna. Einnig er í boði að tjalda fyrir utan Kirkjuból og nýta aðstöðuna innan dyra. Að auki verður hægt að taka þátt í ferðinni án gistingar og velja sér gistingu annars staðar (aðeins 10 mín akstur á Hólmavík). Við verðum með morgunmat í félagsheimilinu Sævangi (skammt frá Kirkjubóli) tvo morgna og veislumat og kvöldvöku þar á laugardagskvöldinu. Víðidalsá er í 5 mín akstursfjarlægð frá Sævangi (7 km).

Fararstjórar verða Einar Skúlason og Elísabet Snædís Jónsdóttir frá Drangsnesi.

Þarna sjást Bæjarvötn og Bæjarfell af leiðinni um Bæjarháls á Drangsnesi.

DAGSKRÁ

Föstudaginn 30. ágúst
Gott er að miða við að leggja af stað frá Reykjavík kl. 15 miðað við að koma um kl. 18 í Steingrímsfjörð. Ef ekki er stoppað á leiðinni þá tekur aksturinn ca tvo tíma og þrjú korter.
Kl. 19 verður farið í létta göngu með útsýni yfir Steingrímsfjörð til að horfa yfir sviðið. Stefnt er að því að fara í mat á Café Riis í kjölfarið eða kl. 20, en staðurinn er víðfrægur fyrir pizzurnar sínar og fleira góðgæti.

Laugardaginn 31. ágúst
Við byrjum á morgunmat í Sævangi snemma morguns. Svo keyrum við út á Drangsnes, skiljum bíla eftir á lokastað göngu og keyrum á upphafsstaðinn við Kaldranarnes. Göngum svo gömlu þjóðleiðina um Bæjarháls. Ef einhver vill taka Bæjarfellið í leiðinni þá er það mögulegt. Gangan er um 6 km og uppsöfnuð hækkun um 200 m (án Bæjarfellsins). Gangan tekur ca þrjá tíma með stoppum (aðeins lengra ef Bæjarfellið er tekið með).
Eftir göngu verður farið í bað/sund á Drangsnesi eða í Bjarnarfirði og hægt að kíkja á galdrasýninguna á Hólmavík.
Um kvöldið verður lambakjötsveisla í Sævangi og kvöldvaka með sögum af Ströndum og söng og öðru skemmtilegu. Látið vita ef þið borðið ekki kjöt.

Sunnudaginn 1. september
Eftir frágang byrjum við á morgunmat í Sævangi. Svo verður keyrt í Kollafjörð og skildir eftir bílar og keyrt áfram í Bitrufjörð og gamla leiðin um Bitruháls gengin yfir í Kollafjörð. Vegalengd 9,5 km og uppsöfnuð hækkun rúmir 400 m. Gangan tekur fimm tíma eða rúmlega það með stoppum. Eftir að búið er að sækja bíla, þá liggur leiðin aftur suður. Best er að klára að keyra Strandaveginn um Hrútafjörð og þaðan um Holtavörðuheiði í bæinn.

LÍKAMLEGT FORM
Þetta er ekki krefjandi ferð og hentar breiðum hópi fólks. Heppilegar æfingar geta falist í göngum á Úlfarsfellið eða sambærilegt og gott að miða við þrisvar í viku þangað upp síðustu þrjár vikur fyrir ferð.

Ströndin í Kollafirði á Ströndum. Mynd: Jón Jónsson

VERÐ OG BÓKANIR
Verð með gistingu kr. 54.100 m/vsk
Verð miðað við tjald fyrir utan Kirkjuból kr. 35.000 m/vsk
Verð miðað við að gista á eigin vegum (innifalinn kvöldmatur eitt kvöld en ekki morgunmatur) kr. 29.000 m/vsk

Innifalið: gisting í uppbúnu í tveggja manna herbergjum eða tjaldað við Kirkjuból (og nýta salernis- og eldhúsaðstöðu innandyra), morgunmatur tvo morgna og lambakjötsveisla (eða vegan) á laugardagskvöldinu og leiðsögn/fararstjórn.
Ekki innifalið: kvöldmatur á föstudagskvöld eða nesti og athugið að fólk þarf að koma sér sjálft norður í Steingrímsfjörð og á milli göngustaða. Við munum skipuleggja samvinnu í bílamálum í lokaða Fb hópnum um ferðina, bæði samnýtingu bíla frá höfuðborgarsvæðinu og á milli göngustaða.
Lágmarksfjöldi er 15 manns.

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið smellið á tengilinn “bóka núna” hér við þessa færslu, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í Sportabler.
Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur þá er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 8.100 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „Stragist“ eða „Stratjald“ (eftir því hvort þið viljið vera í gistingu eða tjaldi). Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför.

Útsýni yfir Steingrímsfjörð frá Sjónvarpshæð. Mynd: Jón Jónsson.

SKILMÁLAR
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 8.100 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113