Vatnaleiðin frá Hlíðarvatni að Hreðavatni um Jónsmessu

Vorið kemur snemma á Mýrunum og við nýtum okkur það með því að skipuleggja þriggja daga trússaða Vesenisgöngu yfir sjálfa Jónsmessuhelgina um hinar fallegu vatnaslóðir milli Mýra og Dala. Friðsældin er dásamleg, gróðurinn nýbúinn að taka við sér, fuglalífið og birtan í hámarki. Fyrsta dagleiðin fer í að ganga frá Hlíðarvatni að Hítarvatni, annan daginn er gengið yfir að Langavatni og þriðja daginn klárum við gönguna með því að ganga yfir að Vikravatni og þaðan að Hreðavatni og Bifröst. Við verðum létt á okkur enda aðeins með dagpokann á bakinu og hægt er að velja um að gista í skála eða tjalda og annar farangur verður fluttur á milli næturstaða. Allar nánari upplýsingar um þessa Vesenisgöngu er hér að neðan.

DAGSKRÁ

23. júní – föstudagur
Við hittumst í Borgarnesi að morgni og losum trúss í kerru. Keyrum svo að Bifröst við Hreðavatn, skiljum bílana eftir og setjumst í rútu með dagpokana okkar og keyrum yfir að Hallkelsstaðahlíð við Hlíðarvatn. Göngum af stað norður fyrir vatnið frá Hallkelsstaðahlíð, stiklum eða vöðum Fossá, Djúpadalsá og Rögnaá og göngum áfram upp í Hellisdal. Þaðan yfir í Klifsdal og í Hvítingshjöllum meðfram Klifsgili niður að Hítará og að skálanum. Þar bíður trússið eftir okkur og við gistum í skálanum. Vegalengd ca 12 km og hækkun ca 500 m.

24. júní – laugardagur
Við tökum daginn snemma, hafragrautur verður í boði og kaffi og eftir frágang göngum við inn með Hólminum og þaðan um Þórarinsdal og upp í Gvendarskarð. Þá niður Hafradalinn og í Langavatnsdal. Vöðum svo Langavatnsdalsána og göngum meðfram vatninu að skálanum Torfhvalastöðum þar sem við gistum. Vegalengd ca 21 km og hækkun ca 500 m.

25. júní – sunnudagur
Við tökum daginn snemma, hafragrautur verður í boði og kaffi og eftir frágang förum við eftir veginum yfir Beilá og svo upp á Beilárheiði. Staldrað er við hjá hinu fallega Vikravatni og svo gengið meðfram Vikrafelli og raunar hægt að fara upp ef vilji er til. Nú opnast útsýni yfir Norðurárdalinn og Borgarfjörðinn og við lækkum okkur niður að Kiðá og þaðan eftir veginum að Hreðavatni og Bifröst. Gaman væri að borða saman í lok göngu. Trússið bíður okkar svo í Borgarnesi. Vegalengd ca 15 km og hækkun ca 400 m.

Skálagisting er fyrir 20 manns og gert er ráð fyrir að 10 manns geti bæst við sem verði í tjöldum. Því geta 30 manns að hámarki tekið þátt í ferðinni. Lágmarksfjöldi er 15 manns.
Þegar búið er að ná lágmarksfjölda í ferðina þá verður stofnaður lokaður hópur á Facebook til að ræða undirbúning og deila upplýsingum varðandi útbúnað og fleira gagnlegt. Þar munum við einnig taka ákvörðun um sameiginlegan mat.

 

UMSJÓN
Einar Skúlason annast leiðsögn í þessari ferð. Hann stofnaði Vesen og vergang árið 2011 og Wapp – Walking app árið 2015.

 

LÍKAMLEGT FORM
Þessi gönguleið flokkast sem meðalþung og er því fyrir flesta í sæmilegu formi og börn í efri bekkjum grunnskóla. Góður undirbúningur er að fara upp að Steini eða sambærilegt tvisvar í viku síðustu þrjár vikur fyrir brottför. Hægt er að miða við að komast upp að Steini á klukkutíma og tuttugu mínútum án þess að verða úrvinda. Muna að hvíla síðustu tvo dagana fyrir ferð. Útbúnaðarlisti verður settur inn á viðburðinn/Fb hópinn með fyrirvara.

 

VERÐ OG BÓKANIR

Verð með skálagistingu kr. 47.000 m/vsk

Verð miðað við tjaldgistingu kr. 37.000 m/vsk

Innifalið:  gisting á dýnu í skála eða tjaldað í grennd við skála, rúta frá Hreðavatni að Hlíðarvatni, trúss, hafragrautur og kaffi á morgnana, fararstjórn. Þess má geta að skálabúar þurfa að hjálpast að við eldamennsku, frágang og fleira í tengslum við skálagistingu.
Ekki innifalið:   nesti eða kvöldmatur og athugið að fólk þarf að koma sér sjálft upp í Borgarfjörð (við getum sameinast í bíla í lokaða Fb hópnum).

Bókanir fara fram á https://www.sportabler.com/shop/vesenisferdir (þið afritið tengilinn og setjið í vafra, skráið ykkur inn og veljið þá gistingu sem passar, veljið greiðslufyrirkomulag og þá er allt klappað og klárt). Það er hægt að dreifa greiðslum á nokkra mánuði og enginn vaxtakostnaður af slíkum ráðstöfunum í Sportabler.

Athugið að ef bókunarkerfið þvælist fyrir ykkur þá er hægt að taka frá pláss í ferðina með því að greiða staðfestingargjald kr. 9.500 inn á reikning: 515-26-530314. Kt. 530314-0650. Senda afrit á einarskula@hotmail.com og merkja „Vatngist“ eða „Vatntjald“ (eftir því hvort þið viljið vera í skála eða tjaldi). Muna að fullgreiða sex vikum fyrir brottför.

 

SKILMÁLAR

Þessi ganga er framkvæmd af Veseni og vergangi (Vesenisferðum ehf).
Ígildi staðfestingargjalds í þessa ferð er kr. 9.500 og er hluti af verði ferðarinnar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Fargjald þarf að greiða að fullu a.m.k. 6 vikum fyrir brottför. Ef greiðsla hefur ekki borist innan settra tímamarka má búast við að ferðin verði seld öðrum.
Um afbókanir gilda annars eftirfarandi reglur:
Afbókun innan 7 daga frá bókun og meira en 21 degi fyrir brottför: Ferð endurgreidd að staðfestingargjaldi frátöldu.
Afbókun 20-8 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 7-4 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreidd.
Afbókun 3-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.
Breytingar: Áskilinn er réttur til að hætta við, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.
Tryggingar: Tryggingar eru fyrir hendi eins og ferðaskrifstofuleyfi gerir ráð fyrir. Farþegar eru engu að síður hvattir til að huga að tryggingarmálum og hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

Share this post

More Stories from Archive

Vesenisferðir ehf

530314-0650
Mávahlíð 33
105 Reykjavík
einarskula hjá gmail.com
Sími: +354 663-2113